„Ég stend ekki þegjandi hjá“

„Ég get ekki staðið hér í dag á tíma þar sem við minnumst komu frelsarans og fyllum hjarta okkar kærleika til náungans án þess að hugsa til þeirra sem hingað hafa komið að leita skjóls og hafa ekki fallið að því kerfi sem við höfum búið okkur,“ sagði Ólöf Nordal innanríkisráðherra í hugvekju sem hún flutti í kvöld á jólavöku í Hafnarfjarðarkirkju.

„Ráðherrar fylgja lögum en þeir hafa líka stefnumarkandi hlutverk og eiga að leggja gott til þess regluverks sem við störfum eftir og samfélagsins alls. Alþingi hefur síðan lokaorðið um það hvernig við búum um þetta samfélag okkar hér,“ sagði Ólöf ennfremur. Samstaða hefði orðið í málefnum útlendinga og innflytjenda um að skapa ramma til að fara eftir og að það væri ekki á forræði ráðherra að fara inn í einstök mál og breyta ákvörðunum án þess að hafa vald til þess með beinum hætti. Slíkt kallaði á geðþóttaákvarðanir sem hún vildi ekki sjá og væntanlega ekki aðrir heldur.

Mannúðarsjónarmið ætíð í hávegum höfð

„Það breytir ekki því að ráðherra á hverjum tíma þarf að gæta að stefnumarkandi hlutverki sínu og því eftirliti sem honum ber að hafa. Í því máli sem hátt hefur borið undanfarna daga, í málefni barna með sjúkdóma sem nú eru farin til heimalandsins, hef ég ekki lokað augum mínum. Ég stend ekki þegjandi hjá,“ sagði ráðherrann. Kerfið yrði að tryggja öllum jafnan rétt að lögum. Kerfið yrði að vinna hratt og vel og passa meðal annars að þeir sem ættu rétt á vernd fengju hana og að farið væri að lögum um málefni barna í öllum tilvikum.

„Til viðbótar við það er það mín skoðun að mannúðarsjónarmið eigi ætíð í hávegum höfð þegar við vinnum og þróum þessi mál áfram,“ sagði Ólöf. Mál albönsku fjölskyldnanna sem fluttar hefðu verið úr landi eftir að umsókn þeirra um hæli var hafnað hafi haft mikil áhrif á marga og hún væri þar ekki undanskilin né nokkur annar sem starfaði að málefnum útlendinga. Það væri þó aukaatriði í málinu. Það sem mestu skipti væru börnin, réttindi þeirra og hagur. Mál fjölskyldnanna hefði því miður ekki farið til úrskurðarnefndar útlendingamála.

Viljum hjálpa þeim sem eiga um sár að binda

„Ég ætla að vera viss um það að allt sé gert með réttum hætti. Það verður að fara að lögum. Ég hef þegar stigið ákveðin skref í þeim efnum. Jafnframt ætla ég að biðja Alþingi að tala um það við mig hvort það vilji gera breytingar á því hvernig taka skuli þessar ákvarðanir. Þetta er ekki einkamál eins né neins, þetta er stefnumarkandi mál, þetta eru mannréttindamál og þetta eru viðkvæm mál. [...] Það þarf að að vera alveg öruggt að málefni barna og réttindi þeirra séu tryggð og ef reglurnar eru ekki nægilega skýrar, þá þarf að laga það.“

Ólöf sagði að íslensk stjórnvöld ætluðu ekki að sitja þegjandi hjá í þeim efnum. Það yrði ekki gert. Grundvallaratriði hlyti hins vegar alltaf að vera það að Íslendingar vildu hjálpa þeim sem ættu um sárt að binda og beina kröftum sínum í þær áttir. „Við þurfum líka að gæta þess að það sé traust á milli þeirra sem taka þessar flóknu og þungu ákvarðanir og hinna sem fylgjast með úti í þjóðfélaginu. Ef vantraust skapast í svo viðkvæmum málum, sem varðar líf fólks og farsæld, er okkur mikill vandi á höndum. Ég hlusta eftir því og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að byggja upp traust. Það er lykilatriði í þessum flóknu málum til framtíðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert