Mun styrkja leigufélög á markaði

Gunnhildur Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Íbúðalánasjóðs.
Gunnhildur Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Íbúðalánasjóðs. Ljósmynd/Gunnhildur Gunnarsdóttir

Aðferðafræðin að setja eignir í stærri eignapakka og selja þannig fjárfestum eða leigufélögum mun byggja undir leigumarkaðinn og frekar leiða til þess að jafnvægi finnist á þeim markaði en að leiguverð þrýstist upp. Þetta segir Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, í samtali við mbl.is, en í dag var kynningarfundur um sölu 504 eigna í 15 eignapökkum. Eignirnar eru frá öllum landshornum og eru flestar eignirnar á Austurlandi eða Reykjanesi.

Þegar 800 íbúðir í sölu á fasteignasölum

Hermann segir að þessi aðferð sem nú sé reynd muni í fyrsta lagi gagnast leigufélögum og þá bæti þetta úrvalið sem Íbúðalánasjóður hafi upp á að bjóða í sölu eigna frá sér í dag. „Megin reglan er sú að við erum með eignir í sölu á fasteignasölu. Í þessu tilfelli erum við með margar eignir í leigu og til að byggja upp leigumarkað og til að raska sem minnst fyrir þá sem búa í eignunum erum við að bjóða þær til sölu með leigjendum til leigufélaga og fjárfesta,“ segir Hermann.

Bendir Hermann á að nú þegar sé sjóðurinn með um 800 eignir í almennri sölu á fasteignasölum og á næsta ári sé horft til þess að selja fasteignafélagið Klett, en þar eru um 450 eignir. Það sé því verið að horfa á alla mögulega kaupendamarkaði.

Ætti að mynda jafnvægisverð

Nokkuð hefur verið horft til þess að stór leigufélög séu að eignast stóran hluta af leigumarkaðinum. Aðspurður hvort hann telji að þessi leið muni ýta undir að kaup slíkra aðila á stórum hluta eignanna og hækkunar leiguverðs segir Hermann að hann telji svo ekki vera. Þannig ætti þetta mikla magn íbúða á markaðinn frekar að mynda jafnvægi á leiguverði.

Sjóðurinn á í dag um 1.500 eignir og með þessu útboði er stefnt að því að selja um einn þriðja af því. Er fasteignamat eignanna fyrir árið 2015 um 9,2 milljarðar. Til samanburðar hefur sjóðurinn selt aðrar 820 íbúðir á þessu ári og eignir fyrir 41 milljarð síðan 2008.

Markmiðið að selja sem mest á þessu og næsta ári

Segir Hermann að frekari sala sé á áformuð á næstunni til viðbótar við þessa eignarpakka og sölu Kletts. Líklega verði það gert með svipuðu sniði og núna. „Markmiðið er að selja sem mest af eignum á þessu og næsta ári,“ segir Hermann aðspurður um hvað sjóðurinn ætli sér að selja mikið. „Þetta er partur af stefnumótunarvinnunni sem stjórn hefur verið í undanfarna mánuði og lítur að því að styrkja stöðu sjóðsins,“ segir Hermann.

Leigufélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni gefst kostur á að fjármagna kaupin með 50 ára láni. Aðspurður hvort hann telji að sjóðurinn muni sjálfur fjármagna kaupin að stórum hluta segir Hermann svo ekki vera. Telur hann að markaðurinn muni fjármagna mest af kaupunum og að Íbúðalánasjóður muni aðeins lána í takmörkuðum tilgangi.

Tækifæri fyrir leigufélög að festa sig á markaði

Gunnhildur Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs sjóðsins, segir að það sé tiltölulega nýtt að setja leiguíbúðir á markað. Það hafi verið gert í fyrsta skipti á síðasta ári. „Þetta er tækifæri fyrir leigufélög að festa sig á markaði. Gjarnan eignir sem hafa verið í leigufélögum sem lögðu upp laupana í kjölfar efnahagshrunsins,“ segir hún.

Hún segir að í skilmálum sölunnar sé kveðið á um hvernig fara skuli með leigusamninga sem geti verið á eignunum. Verður ekki hróflað við þeim meðan á söluferlinu stendur og reynt að halda búsetuöryggi fólks sem þar leigir í dag.

Leigusamningar í gildi óbreyttir út næsta ár

Leigusamningar skiptast upp í ótímabundna og tímabundna samninga. Ótímabundnu samningarnir eru uppsegjanlegir með 6 mánaða fyrirvara, en Gunnhildur segir að slíkt verði þó ekki hægt fyrr en eftir 15. júlí á næsta ári þegar áformað er að gengið verði frá afsölum. Fyrstu samningar geti því losnað eftir áramótin 2016/2017. „Fólk á að vera öruggt með að halda húsnæði í þann tíma,“ segir Gunnhildur.

Tímabundnir samningar gilda út sinn gildistíma, en Gunnhildur segir að renni þeir út milli tilboðs kaupenda og afsals í júlí næstkomandi verði samningarnir endurnýjaðir í allavega 6 mánuði og þannig verði reynt að tryggja búsetuöryggi leigjanda.

Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs.
Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert