Barátta um betra samfélag

Þingflokkur VG.
Þingflokkur VG.

Með fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 heldur ríkisstjórnin áfram að auka ójöfnuð, segir í yfirlýsingu frá þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Þar segir að almenningur verði af tekjum, tekjustofnar ríkisins veikist og fjármunir gangi til stórefnafólks og stórfyrirtækja í stað innviða samfélagsins.

„Eftir situr fjársvelt heilbrigðis- og velferðarkerfi, fjárvana menntakerfi og ekki síst; aldraðir og öryrkjar, sjúklingar og ungt fólk.“

Yfirlýsingin í heild:

Skaðleg ójafnaðarstefna

Í dag, 16. desember, ganga þingmenn til atkvæðagreiðslu um frumvarp til fjárlaga sem lagt er fram af fjármálaráðherra. Lýkur þar með annarri umræðu sem staðið hefur óvenju lengi.

Í umræðunni hefur verið tekist á um grundvallaratriði í samfélagsmálum. Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hafa talað linnulítið gegn því ranglæti sem ríkisstjórnin beitir tekjuminni hópa landsmanna með skattabreytingum sem gagnast þeim efnameiri og bitna á láglaunafólki. Þingmenn VG hafa haldið uppi vörnum fyrir Landspítalann þar sem verulegar fjárhæðir skortir til að sjúkrahúsið geti haldið uppi eðlilegri þjónustu við sjúklinga. Þingmenn Vinstri - grænna hafa einnig lagt fram tillögur ásamt öðrum stjórnarandstöðuflokkum til að tryggja að öryrkjar og aldraðir fái kjarabætur í samræmi við aðra hópa í samfélaginu. Þá hafa þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs líka andmælt kröftuglega árvissri atlögu gegn Ríkisútvarpinu, þar sem ætlunin er að lækka útvarpsgjaldið þvert á loforð og yfirlýsingar menntamálaráðherra.

Með fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 heldur ríkisstjórnin áfram að auka ójöfnuð. Almenningur verður af tekjum, tekjustofnar ríkisins veikjast og fjármunir ganga til stórefnafólks og stórfyrirtækja í stað innviða samfélagsins. Eftir situr fjársvelt heilbrigðis- og velferðarkerfi, fjárvana menntakerfi og ekki síst; aldraðir og öryrkjar, sjúklingar og ungt fólk.

Atkvæðagreiðslan um fjárlagafrumvarpið endurspeglar afstöðu til skiptingar gæðanna og afstöðuna til réttmætra krafna öryrkja og aldraðra. Ef stjórnarþingmenn kjósa að fella málefnalegar og fjármagnaðar tillögur stjórnarandstöðu um að bæta kjör lífeyrisþega þá er holur hljómur í málflutningi forsætisráðherra sem stærði sig af jöfnuði fjárlagafrumvarpsins við upphaf atkvæðagreiðslunnar. Hættan er sú að fjárlögin 2016 festi enn í sessi ójafnaðarstefnu núverandi ríkisstjórnar sem mun valda samfélaginu öllu skaða.

Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs munu halda áfram baráttu sinni gegn ójöfnuði og fyrir bættum kjörum eldri borgara, öryrkja og sjúklinga. Sú barátta snýst um betra samfélag fyrir okkur öll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert