Stormviðvörun frá Veðurstofunni

Vindaspáin klukkan17 á morgun
Vindaspáin klukkan17 á morgun Veðurstofa Íslands

Búast má við mjög versnandi akstursskilyrðum á norðanverðu landinu á morgun, einkum norðvestan til en spáð er stormi á morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands er von á hæglætis austan- og suðaustanátt og dálitlum skúrum eða éljum í dag, en léttskýjað á Norður- og Austurlandi.

Eftir miðnætti nálgast síðan dýpkandi lægð sunnan úr hafi og fer að hvessa talsvert með morgninum. Gengur síðan í norðaustanhvassviðri eða -storm með snjókomu norðanlands, rigningu fyrir sunnan og slyddu austast. Hvassast verður á Vestfjörðum, við Breiðafjörð, í Öræfum og Mýrdal. Líkleg spillist færð á norðanverðu landinu og sums staðar á Austurlandi fljótlega upp úr hádegi á morgun.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Suðaustan og síðar austan 3-10 m/s og stöku skúrir eða él, en léttskýjað á Norður- og Austurlandi. Norðaustan 8-13 norðvestan til í kvöld, en annars hægari og víða dálítil él, en úrkomulítið syðra. Frost 0 til 10 stig, kaldast norðaustan til, en víða frostlaust við sjávarsíðuna. Gengur í austan og norðaustan 15-23 í fyrramálið, hvassast norðvestan til. Rigning sunnanlands á morgun og snjókoma fyrir norðan, en rigning eða slydda austast. Hiti 1 til 6 stig sunnan- og austanlands á morgun, en annars vægt frost.

Á fimmtudag:

Norðaustan 15-23 m/s, hvassast NV-til. Snjókoma um landið norðanverð og frost 0 til 4 stig. Talsverð slydda eða snjókoma A-lands, en rigning syðra og hiti 0 til 5 stig.

Á föstudag og laugardag:
Norðaustan og norðan 10-18 m/s og snjókoma eða éljagangur, hvassast á annesjum, en úrkomulítið SV-til. Kólnandi veður.

Á sunnudag:
Minnkandi norðanátt og éljagangur, en birtir til S- og V-lands. Talsvert frost.

Á mánudag:
Útlit fyrir hvassa austanátt með snjókomu eða slyddu, en úrkomulítið NA-lands fram á kvöld. Hlýnar dálítið í bili.

Á þriðjudag:
Hæg suðaustanátt og stöku él. Kalt í veðri.

mbl.is