Meirihlutinn hefur skilað áliti

Frumvarp til fjárlaga 2016 er enn óafgreitt.
Frumvarp til fjárlaga 2016 er enn óafgreitt. mbl.is/Ómar

Tillögur meirihluta fjárlaganefndar varðandi bein áhrif stöðugleikaframlaga á ríkisfjármál fela í sér að tekjur aukast um 340,4 milljarða króna og gjöld um 4 milljarða króna á rekstrargrunni. Fram kemur í nefndaráliti meirihlutans fyrir þriðju umræðu um fjárlagafrumvarp 2016 að að meðtöldum stöðugleikaframlögum sé áætlað að heildartekjur ríkissjóðs nemi 1.040.705 milljónum króna og gjöldin 695.061 milljónum króna á næsta ári.

Án stöðugleikaframlaga verða tekjurnar 700.305 milljónir króna og gjöldin 693.561 milljónir króna og áætlaður rekstrarafgangur 6.744 milljónir króna.

Verulegur munur er á tekjufærslum á rekstrargrunni og greiðslum á næsta ári, líkt og fram kemur í töflunni hér að neðan.

„Þar munar langmestu að ekki er gert ráð fyrir að selja Íslandsbanka eða Arionbanka á næsta ári en stærstu einstöku hlutar stöðugleikaframlaganna eru eignarhlutir í Íslandsbanka og skuldabréf Kaupþings með veði í Arionbanka ásamt afkomuskiptasamingi sem greiða skal upp við sölu bankans, í síðasta lagi eftir þrjú ár,“ segir í nefndarálitinu.

Meirihlutinn gerir tillögu um fjórar breytingar á gjaldahlið; tímabundin framlög til Ríkisútvarpsins og Landspítala, sem mbl.is sagði frá fyrr í kvöld, og 1.096 milljóna króna hækkun á fjárheimild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Sú breyting er tvíþætt og felur annars vegar í sér 1.445 milljóna króna hækkun vegna samkomulags um fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk, og hins vegar 349 milljóna króna lækkun í samræmi við endurmat á tekjuáætlun ríkissjóðs.

Frétt mbl.is: 1.250 milljónir til Landspítala

Frétt mbl.is: Gjaldið lækkar en framlagið er óbreytt

Í nefndarálitinu er fjallað um hið 175 milljóna króna framlag til Ríkisútvarpsins til eflingar innlendrar dagskrárgerðar. Þar bendir meirihlutinn á að hin sérstaka tímabundna fjárveiting skekki samkeppnisstöðu innlendra ljósvakamiðla enn frekar.

„Því er nauðsynlegt að mennta- og menningarmálaráðuneytið marki stefnu til framtíðar um eflingu innlendrar dagskrárgerðar almennt þar sem allir fjölmiðlar sitja við sama borð. Þar hlýtur að verða skoðað sérstaklega hvort skynsamlegt sé að koma á fót sjálfstæðum dagskrárgerðarsjóði til að efla innlenda dagskrárgerð sem yrði að stærstum hluta fjármagnaður með útvarpsgjaldi. Meiri hlutinn telur óumdeilt að frá menningarlegu sjónarmiði sé mikilvægt að efla innlenda dagskrárgerð, jafnt í útvarpi sem sjónvarpi, og að löggjafinn geti tryggt það án þess að afleiðingin verði aukinn kostn­aður fyrir ríkissjóð eða hækkun gjalda sem eru lögð á einstaklinga og lögaðila. Jafnframt er nauðsynlegt að stuðla að jafnræði á fjölmiðlamarkaði og ýta undir valddreifingu og fjölbreytni í dagskrárgerð.
    Meiri hlutinn beinir því jafnframt til mennta- og menningarmálaráðherra að í nýjum þjónustusamningi ráðuneytisins og Ríkisútvarpsins ohf. verði ákvæði um stighækkandi útboðsskyldu vegna dagskrárefnis á samningstímanum,“ segir í álitinu.

Sundurliðun á eignum sem ríkissjóður yfirtekur í formi stöðugleikaframlaga á …
Sundurliðun á eignum sem ríkissjóður yfirtekur í formi stöðugleikaframlaga á næsta ári og áætluðu verðmæti þeirra. Skjáskot/Nefndarálit meirihluta fjárlaganefndar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert