Þingið ekki tilbúið í ESB-málinu

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. AFP

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir Alþingi ekki hafa verið tilbúið að taka á ESB-málinu. Þess vegna hafi hann sent Evrópusambandinu bréf og óskað þess að Ísland yrði ekki lengur álitið umsóknarríki. Málið hafi verið þaulrætt innan ríkisstjórnarinnar.

Gunnar Bragi kaus að ræða ekki við Morgunblaðið eftir að Matthias Brinkmann, sendiherra ESB á Íslandi, sagði í samtali við blaðið 25. nóvember að ESB-umsóknin frá 2009 frá mögulega enn í gildi. Það gerðist svo í málinu að Morgunblaðið fékk það svar frá ESB í byrjun þessa mánaðar að staða umsóknarinnar væri innanlandsmál á Íslandi. Var því látið ósvarað hvort umsóknin væri mögulega enn í gildi.

Gunnar Bragi tjáir sig nú hins vegar um Evrópumálin í samtali við helgarútgáfu DV. Er þar hvorki vikið að ummælum sendiherrans, né svari ESB um stöðu umsóknarinnar. Hér er hlekkur á viðtalið á vef DV.

Þar ræðir blaðamaðurinn, Sólrún Lilja Ragnarsdóttir, við Gunnar Braga um aðdraganda bréfsins umdeilda, sem sent var til ESB 12. mars, á þennan veg:

Gengið vel í ESB-málinu

„Það var auðvitað þessi stóra áskorun sem sneri að Evrópumálunum og eftir að ég og forsætisráðherra höfðum rætt þetta okkar á milli ásamt varaformanni flokksins var þetta niðurstaðan. Ég sé ekki eftir því. Þetta er gríðarlega skemmtilegt ráðuneyti og ég held að mér hafi gengið þokkalega. Mér gekk vel með verkefnið varðandi Evrópusambandið, vil ég meina,“ segir Gunnar Bragi og vísar þar til þess þegar aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið var slitið í mars á þessu ári með bréfi sem hann afhenti formanni þess.

Það kom mörgum á óvart að það skyldi gerast á þessum tímapunkti, enda hafði málið ekki verið rætt á Alþingi. Töldu sumir að þessi vinnubrögð væru aðför að þingræðinu. Gunnar Bragi segir málið hins vegar hafa verið þaulrætt innan ríkisstjórnarinnar og að hann hafi haft fullt umboð til að slíta viðræðunum með þessum hætti.

„Þingið var ekki tilbúið að taka á málinu og þessi leið sem var farin var fullkomlega eðlileg og heimil. Bréfið fór fyrir ríkisstjórn og það lá samþykkt á bak við það. Auðvitað kom þetta mörgum á óvart, en við vorum búin að undirbúa þetta býsna vel. Margt var sagt sem var ekki rétt og Evrópusambandið hrökk svolítið við, enda höfðu þeir aldrei kynnst því að þjóð hætti við viðræðurnar. Það tók þá því svolítinn tíma að bregðast við, sem þeir gerðu á endanum. En ég tel þetta vera eitt af góðu málunum sem við höfum náð í gegn í ráðuneytinu,“ segir Gunnar Bragi í samtali við DV.

Sagðist hafa haldið ESB-mönnum upplýstum

Þau ummæli Gunnars Braga að ESB hafi „hrokkið við“ og það tekið sambandið langan tíma að bregðast við bréfinu vekja athygli í ljósi fyrri yfirlýsinga hans í málinu.

Þannig sagði Gunnar Bragi í samtali við Morgunblaðið 18. mars, eða nokkrum dögum eftir að hann sendi bréfið, að samskipti hans og utanríkisráðuneytisins við fulltrúa Evrópusambandsins hefðu þá hafist fyrir tveimur til þremur vikum. Það hafi verið aðdragandinn að þeirri ákvörðun hans að senda bréf til ESB þar sem þess er óskað að Ísland hafi ekki lengur stöðu umsóknarríkis. Hann hafi rætt málin við Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, sem þá gegndi formennsku í ESB. Þá sagði ráðherrann í sama viðtali að hagsmunamat hafi ráðið því að málið hafi ekki farið fyrir þingið. Til upprifjunar lagði ráðherrann fram þingsályktunartillögu um afturköllun ESB-umsóknarinnar í ársbyrjun 2014, sem síðan dagaði uppi í þinginu.

Umsóknin var samþykkt á Alþingi sumarið 2009 og hófust aðildarviðræðurnar formlega sumarið 2010. Vinstristjórnin setti viðræðurnar á ís í janúar 2013, eða nokkrum mánuðum fyrir þingkosningarnar þá um vorið.

Vildu nálgast málið í rólegheitum

Umrædd orðaskipti við ráðherrann í viðtalinu í Morgunblaðinu 18. mars voru svohljóðandi:

„Samskiptin hafa verið þannig að ég hef átt samtöl við lettneskan kollega minn sem er nú í forsvari fyrir Evrópusambandið og embættismenn í ráðuneytinu hafa átt samtöl við embættismenn hjá Evrópusambandinu. Þetta er allt á óformlegum nótum. Það er einfaldlega verið að ræða hlutina, hvernig væri hægt að gera þetta og hvernig menn myndu mögulega bregðast við og annað slíkt. En að sjálfsögðu hefði Evrópusambandið aldrei getað sagt okkur eitthvað eitt ákveðið í því. Það sem við vorum fyrst og fremst að gera var að upplýsa um fyrirætlanir okkar og halda þeim upplýstum.“

Þú hefur nefnt í viðtali að það væri mat ykkar að ekki bæri að fara fram með „offorsi“ í málinu. Hvenær komist þið að þeirri niðurstöðu að þetta sé besti farvegurinn?

„Í raun má segja að við höfum gert það strax 2013 þegar við ákváðum að fara ekki hreinlega fram með tillögu þá. Við vildum nálgast málið í rólegheitunum. Við hins vegar ákváðum það fyrir tveimur, þremur vikum – það var mín tillaga – að heyra í kollega mínum með þetta allt saman. Síðan hafa verið smávægileg óformleg samskipti um þetta allt saman sem leiddi til þess að ríkisstjórnin ákvað að senda þetta bréf.“

Var eitthvað í viðbrögðum lettnesks kollega þíns eða embættismanna í Brussel sem styrkti þessa skoðun í sessi, að betra væri að gera þetta svona en ganga lengra?

„Nei, ekki beint þannig. Það er fyrst og fremst að hlutirnir skýrast oft betur þegar menn tala saman og það var nú fyrst og fremst það sem við vorum að gera. Við vorum vissir um það allan tímann að við gætum sent þetta bréf og höfðum fulla heimild til þess. Þannig að við vildum fyrst og fremst tryggja að þetta kæmi Evrópusambandinu ekki á óvart. Við vildum líka hlusta eftir því, að sjálfsögðu, hvernig þeir myndu mögulega bregðast við slíku bréfi. Þeir gátu vitanlega ekkert sagt okkur eða lofað okkur neinu.“

Ísland átti frumkvæðið

Kom fram í þeirra svörum að þeir óskuðu eftir því að það yrði ekki gengið lengra en þarna er gert?

„Nei, nei. Við áttum frumkvæðið að þessu öllu saman.“

Er sérstök ástæða fyrir því að ýta þessu úr vör í síðustu viku?

„Nei. Ef ég ætlaði að koma með mál inn í þingið þurfti það að gerast fyrir ákveðinn tíma. Ég taldi hins vegar að á þessum tímapunkti væri rétt að gera þetta með þessum hætti, eiga þessi samtöl. Það er engin sérstök ástæða fyrir tímasetningunni önnur en sú að auðvitað var komið að því að leggja fram þingmál eða fara þessa leið og það var best að draga það ekki of lengi,“ segir Gunnar Bragi en frestur til þess að leggja fram þingmál rennur út 31. mars.

Myndu beita málþófi

Hvaða afleiðingar hefði það haft fyrir Ísland að fara fram með „offorsi“ eins og þú orðar það?

„Ég reikna ekki með að stjórnarandstaðan myndi vilja greiða atkvæði um þetta mál, ekki frekar en sl. vor, þar sem hún beitti málþófi og kom í veg fyrir að málið næði fram að ganga. Við myndum þá væntanlega þurfa að taka vorið og sumarið í málið. Ég held að það myndi hvorki þjóna hagsmunum Íslands, Evrópusambandsins né þjóðarinnar að vera í slíku rifrildi um hlut sem hægt er að klára á þennan hátt. Ég hugsa að Evrópusambandið skilji að það er engum greiði gerður með slíku, hvorki þeim né okkur. En þetta er leið sem er mjög skynsamleg af því að málið er löngu dautt.“

Kom einhvern tímann fram í samskiptum þínum við ESB að það áliti þetta ígildi afturköllunar?

„Fullltrúar ESB hafa aldrei tjáð sig um slíkt. Þeir segja, sem er mjög eðlilegt, að þetta sé innanríkismál, að þetta sé málefni Íslands, hvernig ríkisstjórnin orðar bréfið og tekur á þessu máli. Þeir munu hins vegar virða það sem kemur til þeirra. Ég held að það sé alveg skýrt hvað við erum að fara með þessu bréfi. Ég býst við að viðbrögð þeirra verði alveg skýr í því efni.“

Fékkstu þau viðbrögð að þetta skref hefði í för með sér að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki?

 „Þeir lofuðu okkur ekki neinum sérstökum viðbrögðum,“ sagði Gunnar Bragi í viðtalinu við Morgunblaðið sem birtist 18. marsl. 

mbl.is

Bloggað um fréttina