Skyrgámur vill sprauta öll börn

Skyrgámur veit að bólusetningar bjarga lífi barna
Skyrgámur veit að bólusetningar bjarga lífi barna Teikning/Brian Pilkington

Skyrgámur veit að bólusetningar bjarga lífi barna og mætti til byggða í nótt hlaðinn bóluefni. Ís­lensku jóla­svein­arn­ir og UNICEF eru kom­in í óvenju­legt sam­starf og það með mbl.is. Skyrgámur er sérlega áhugasamur um það hvað hægt er að gera til að stuðla að góðri heilsu. Hann veit hversu auðvelt og ódýrt það er að verja börn gegn lífshættulegum sjúkdómum með bólusetningum. Mislingar eru til dæmis bráðsmitandi veirusýking sem er ein helsta dánarorsök barna yngri en fimm ára í heiminum. Á hverjum degi látast fleiri en 300 börn af völdum sjúkdómsins. Þau dauðsföll hefði mátt fyrirbyggja.

Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti en þessi jólin hafa þeir þó ákveðið að taka höndum saman, bæta ráð sitt og hjálpa UNICEF við að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð. Mbl.is tekur þátt í samstarfinu og birtir fram að jólum myndband með jólasveini dagsins.

Skyrgámur veit að bólusetningar bjarga lífi barna og er því sammála því að öll börn eigi rétt á þeim. Bræður hans eru allir mjög hræddir við sprautur en Skyrgámur veit að það er ekkert að óttast.

Fólk er hvatt til að hjálpa Skyrgámi að bæta heilsu barna – með því að gefa sanna gjöf hjá UNICEF. Sann­ar gjaf­ir eru lífs­nauðsyn­leg hjálp­ar­gögn fyr­ir bág­stödd börn, til dæm­is moskítónet, náms­gögn og jarðhnetumauk fyr­ir vannærð börn. UNICEF sér til þess að gjöf­in ber­ist til barna og fjöl­skyldna þeirra þar sem þörf­in er mest.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, berst fyrir réttindum allra barna – alltaf, alls staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert