Valdi ekki það sem fólk bjóst við

Ólafur Stefánsson.
Ólafur Stefánsson. Árni Sæberg

„Í gegnum lífið almennt er maður alltaf að læra eitthvað; jafnvel bara í kaffibolla hjá afa eða ömmu, af einhverju sem þau segja, eða fær einhverjar hugljómanir. Manni tekst vel upp, gerir mistök og síðar meir er maður búinn að gleyma því hvað gerði það að verkum að manni tókst vel eða illa upp. Eitthvað sem maður hefði viljað geyma með sér en hafði engin tæki og tól til þess,“ segir handboltakempan Ólafur Stefánsson um hugmyndina að baki forritinu KeyWe sem hann gekk lengi með í maganum og er nú komin á siglinu.

KeyWe er forrit sem heldur utan um það efni sem nemendur vinna með frá degi til dags; námsefni, áhugamál og hugmyndir og forritið umbreytir því í tölvuleiki sem þjálfa nemendur til að muna efnið og kalla það hratt fram þegar notandinn þarf að tengja á milli ólíkra efnisþátta. Eftir að Ólafur hætti í atvinnumennsku í handbolta ákvað hann að beina allri sinni orku að þessu verkefni en fyrir nokkrum mánuðum fékk það 14 milljón króna styrk frá Rannís. 

„Mig langaði að gera krökkum kleift að festa með sér það sem þau vilja virkilega muna. Þetta snýst því líka um einstaklingsbundið val, að þau geti alltaf, hvar sem þau eru og hvað sem þau eru að gera; tekið þar eitthvað sem þeim þykir merkilegt og tengt það við forritið. Þetta er leikjastílabók 21. aldarinnar þar sem nemendurnir ásamt kennurum eru þannig alltaf að móta námsefni á rauntíma í gegnum og inn í tölvurnar.“

Í viðtali sem birtist um helgina í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins ræðir Ólafur meðal annars um verkefnið, líf og störf og af hverju KeyWe er hans ástríða.

„Ég valdi óvissuleiðina með því að velja KeyWe en ekki það sem margir bjuggust við; eitthvað sem ég kunni best. Ég varð bara að koma þessu frá mér,“ segir Ólafur í viðtalinu en útilokar þó ekki að gera þjálfun aftur að aðalstarfi síðar meir.

„Eins og stendur er ég þó aðstoðarlandsliðsþjálfari. Það starf kallar á helgun en er meira í törnum í stað stöðugrar hugsunar og vinnu. Mitt aðalstarf er KeyWe og það fyrirbæri tekur meira en fullan vinnudag.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert