Hæfi Kristins Dags verður tekið til skoðunar

Samkvæmt erindi Fjölmiðlanefndar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins kunna tveir stjórnarmenn ...
Samkvæmt erindi Fjölmiðlanefndar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins kunna tveir stjórnarmenn RÚV að vera vanhæfir til stjórnarsetu. mbl.is/Eva Björk

Fjölmiðlanefnd hefur ekki gert athugasemdir við setu Kristins Dags Gissurarsonar, varabæjarfulltrúa Framsóknarflokksins í Kópavogi, í stjórn RÚV en Kristinn sat fund bæjarstjórnar Kópavogs þann 13. október sl.

Líkt og fram kom á mbl.is fyrr í dag telur Fjölmiðlanefnd það ekki samræmast lögum að Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sitji í stjórn RÚV vegna setu hans á Alþingi sem varaþingmaður í viku í júní sl.

Frétt mbl.is: Telja Mörð vanhæfan til stjórnarsetu

Mörður og Gissur hafa báðir setið í stjórn RÚV frá því í janúar sl.

Í 9. gr. laga um Ríkisútvarpið segir að kjörnir fulltrúar til Alþingis og sveitarstjórna séu ekki kjörgengir í stjórn Ríkisútvarpsins, og telur Fjölmiðlanefnd að Mörður uppfylli því ekki skilyrði til þess að teljast hæfur til stjórnarsetu í stjórn RÚV.

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, heyrði fyrst af hugsanlegu vanhæfi Kristins Dags þegar mbl.is spurði hana út í það hvort hæfi Kristins Dags til stjórnarsetu í stjórn RÚV hefði verið skoðað.

„Eftir því sem við erum búin að skoða þetta, þá virðist það sama gilda um aðalmenn og varamenn,” segir hún aðspurð um hvort meint vanhæfi Marðar Árnasonar til stjórnarsetu eigi einnig við um Kristin Dag.

„Það virðist vera að þeir séu báðir kjörnir fulltrúar og í lögunum er talað um kjörna fulltrúa bæði til Alþingis og sveitarstjórna,” segir Elfa en tekur þó fram að þar sem hún hafði ekki heyrt af þessu áður þá eigi eftir að skoða mál Kristins Dags, sem hún segir Fjölmiðlanefnd koma til með að gera.

Frétt mbl.is: Mál Marðar fyrst skoðað í síðustu viku

mbl.is náði tali af Guðlaug­i G. Sverris­syni rétt áður en stjórnarfundur RÚV hófst nú síðdegis. Hann sagði að mál Kristins Dags yrði ekki tekið fyrir á fundinum, og sagðist, líkt og Elfa, ekki hafa heyrt af því fyrr að Kristinn Dagur kynni einnig að vera vanhæfur til stjórnarsetu. Guðlaugur sagði að málið yrði þó tekið til skoðunar.

mbl.is