Slysið rakið til búnaðar

Perla hefur lokið hlutverki sínu fyrir Björgun.
Perla hefur lokið hlutverki sínu fyrir Björgun. mbl.is/Árni Sæberg

Rannsóknarnefnd sjóslysa telur að orsök slyss sem varð um borð í sanddæluskipinu Perlu í Landeyjahöfn í apríl megi rekja til þess hversu illa hannaður búnaður var um borð og starfsumhverfið óöruggt. Skipverji slasaðist mikið í slysinu.

Þann 17. apríl 2015 var sanddæluskipið Perla við störf við Landeyjahöfn. Veður: VSV 4-6 m/s (Landeyjahöfn) Skipverji var einn að vinna við að spúla lestina og hélt í handfang, fast við hosu, sem losnaði af með þeim afleiðingum að hann kastaðist með henni ofan í lestina. Skipverjinn lenti m.a. á járnbita og slasaðist mikið.

Fram kemur í skýrslu sjóslysanefndar að slasaði var að stýra skolstút með tveggja metra handfangi sem soðið var fast á stútendann og stóð hann á palli milli lestanna við það). Stúturinn, sem losnaði, var á gúmmíbarka sem festur var við sjólögnina og handfangið var fest í enda hans. Ekki er vitað af hverju stúturinn losnaði en skipverjinn náði ekki að sleppa handfanginu í tíma.

Nefndin telur að þrátt fyrir endurbætur og breytt verklag sé frágangur á stútnum viðsjárverður með tilliti til öryggis. Nefndin telur að með tilliti til búnaðar og verkefnis skipsins hafi mönnun þess verið ábótavant. Nefndin telur brýnt að Samgöngustofa endurbæti lögskráningakerfi sjómanna sem fyrst þannig að unnt sé að skrá raunverulega mönnun skipa, segir í nefndaráliti en Perla sökk í Reykjavíkurhöfn í byrjun nóvember.

Stjórnendur Björgunar hafa lýst yfir altjóni vegna dæluskipsins Perlu sem sökk í Gömlu höfninni í Reykjavík. Ráðstöfun flaksins er á hendi tryggingafélagsins Sjóvár.

Rannsóknarnefnd sjóslysa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert