Fullkomlega eðlilegt að fara varlega

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Það er fullkomlega eðlilegt að farið sé varlega í yfirlýsingar,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is. Tilefnið er forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag þar sem fullyrt er að samráðherrar Gunnars Braga séu ósáttir við afdráttarlausar yfirlýsingar hans um stuðning við áframhaldandi viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi. Vísað er þar til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem sagðir eru vilja fara sér hægt í yfirlýsingum um afstöðu Íslands til málsins.

Gunnar Bragi kannast ekki við að samráðherrar hans séu ósáttir við yfirlýsingar hans vegna stuðnings við áframhaldandi viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum. Slíkt hafi ekki verið orðað við hann. Fullkomlega eðlilegt sé að menn vilji fara varlega í yfirlýsingar og það hafi enda verið gert. „Það væri hægt að segja miklu meira um þetta mál en sagt hefur verið,“ segir hann við mbl.is. Leiðtogar Evrópusambandsins samþykktu á föstudaginn að framlengja viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi um sex mánuði en Ísland hefur stutt fyrri aðgerðir.

Stuðningur Íslands við viðskiptaþvinganirnar hefur verið gagnrýndur hér á landi einkum í kjölfar þess að rússnesk stjórnvöld ákváðu að setja Ísland á lista yfir ríki sem þeir beita viðskiptaþvingunum. Viðskiptaþvinganir Rússa eru að þeirra sögn svar við viðskiptaþvingunum gagnvart þeim. Viðskiptaþvinganirnar hafa einkum komið sér illa fyrir útflutning á íslenskum sjávarafurðum til Rússlands en einnig landbúnaðarafurðum. Stuðningur við frekari aðgerðir gegn Rússum hefur ekki verið tekinn formlega fyrir í ríkisstjórninni.

Mbl.is hafði samband við Bjarna Benediktsson vegna málsins en hann vísaði á Sigmund Davíð. Ekki hefur hins vegar náðst í forsætisráðherra í morgun.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert