Skötusmökkun fyrir kurteisissakir

Kyle Don smakkaði skötu í fyrsta og líklega eina skiptið …
Kyle Don smakkaði skötu í fyrsta og líklega eina skiptið í dag. Hallur Már

„Þetta minnir á alkahól eða eitthvað sem maður þrífur með, ég get ekki alveg sett fingurinn á það,“ sagði Colorado-búinn Kyle Don þegar hann þefaði af vestfirskri skötu í fyrsta skipti í hádeginu á Kex-Hostel. Að eigin sögn er hann opinn fyrir nýjungum í matargerð, þykir fiskur góður og var því tilbúinn að láta reyna á það hvernig skatan bragðaðist.

Skötulyktin á Kex jafnast varla á við þá sem gýs upp í bílskúrum, eldhúsum og mötuneytum í dag en hún er engu að síður það sterk að hlutfall erlendra gesta hefur líklega sjaldan verið jafn lágt í salnum. Töluvert af fólki var komið til að gæða sér á skötunni sem kom frá Þingeyri en enginn útlendingur virtist vera þar á meðal.

Í þágu vísindanna ákvað Don að taka þátt í smökkuninni með mér og eftir að hafa stappað kartöflum og rófum saman við vænan skötubita var diskurinn baðaður í hamsatólg. Bandaríkjamaðurinn hélt þó ró sinni þrátt fyrir hafa látið hafa sig út í að bragða á þessum frumstæða og framandi málsverði.  

„Þetta er ekki svo slæmt, svolítið skrýtin áferð á þessu, en ekki svo slæmt,“ segir hann eftir fyrsta munnbitann. Aðspurður sagðist hann alveg treysta sér til að geta klárað af disknum, „Ég er mikið á móti sóun og gæti klárað af disknum en það væri líklega eina ástæðan sem fengi mig til þess,“ segir hann og hlær við. 

„Ahh það var meira bit í þessum,“ segir hann eftir næsta bita. „Það er undarlegt hvernig þetta fyllir öll vit.“ Don er nú augljóslega spenntari fyrir því að bragða á rúgbrauðinu sem var borið fram með matnum. Hann á erfitt með að ímynda sér að landar hans myndu vilja skötuna en er líklega of kurteis til að segja það hreint út hvað honum finnst um matinn.

Don þakkar fyrir sig af hóflegri innlifun því nú þarf hann að stökkva upp í rútu sem fer með hann til Keflavíkur þar sem hans bíður langt flug til Denver í Colorado. Hann virðist þó hafa haft gaman af því að fá smjörþefinn af séríslenskri matarhefð en ólíklegt hlýtur að teljast að sessunautur hans í fluginu langa muni deila með honum hrifningu af ævintýramennskunni þar sem of lítill tími er til skipta um föt eða fara í sturtu.    

Skatan sem boðið var upp á í hádeginu á Kex …
Skatan sem boðið var upp á í hádeginu á Kex kom frá Þingeyri. Hallur Már
Heimamenn voru í meirihluta á Kex í dag.
Heimamenn voru í meirihluta á Kex í dag. Hallur Már
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert