Kínverskum ferðamönnum fjölgar mest

Ferðamönnum fjölgar frá flestum löndum. Mest fjölgun er frá Kína, …
Ferðamönnum fjölgar frá flestum löndum. Mest fjölgun er frá Kína, en þar eru ferðamenn þegar orðnir 65% fleiri en í fyrra og á enn eftir að telja með desember mánuð. mbl.is/Golli

Ferðamönnum hefur fjölgað gífurlega það sem af er ári og í september voru þeir orðnir fleiri en allt árið í fyrra. Þegar tölur yfir fjölda ferðamanna sem fara í gegnum Leifsstöð er skoðaður sést að eftir nóvember hafði þeim fjölgað um rúmlega 30% á fyrstu 11 mánuðum ársins og um rúmlega 23% miðað við allt árið á undan.

Stefnir í tæplega 31% fjölgun milli ára

Fjöldi erlendra ferðamanna um Leifsstöð var í nóvember kominn upp í 1.191.081, en Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, segir að ef sama aukning verði í desember og á haustmánuðum verði lokatölur ársins frekar nálægt 1,3 milljónir frekar en í kringum 1,2 milljónir.

Í fyrra voru ferðamenn 53 þúsund í desember, en í september til nóvember fjölgaði ferðamönnum um 41%. Með sömu fjölgun verða ferðamenn um 1,27 milljónir á þessu ári, en það væri 30,7% fjölgun milli ára.

Taka Bandaríkjamenn fram úr Bretum?

Þegar rýnt er í það hvaða ferðamenn eru duglegastir að koma eru Bandaríkjamenn í dag fjölmennasti hópurinn, en 230 þúsund Bandaríkjamenn höfðu komið til landsins miðað við tölur í nóvember. Bretar voru í öðru sæti með 216 þúsund manns. Þessi tvö lönd hafa um langt skeið bitist um toppsætið, en Bretar oftar verið ofar á lista.

Ferðamenn á Íslandi voru í september þegar orðnir jafn margir …
Ferðamenn á Íslandi voru í september þegar orðnir jafn margir og í fyrra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Árið 2013 og 2014 tóku Bretar svo afgerandi forystu, en það sem einkennir ferðavenjur þeirra til Íslands er að árstíðasveiflan er minni og þeir eru duglegri að koma yfir veturinn, ólíkt flestum öðrum þjóðum. Þrátt fyrir að það muni 14 þúsund farþegum fyrir desember mánuð gæti því niðurstaðan orðið sú að fjöldi Breta hér í desember vinni upp muninn. Á móti kemur að flugi til Bandaríkjanna hefur fjölgað talsvert á þessu ári og gæti það einnig dregið úr muninum í desember.

Kínverjum fjölgar mest

Strax í nóvember var fjöldi ferðamanna frá 14 af 17 helstu brottfaralöndum ferðamanna hingað til lands orðinn meiri en í fyrra. Kínverjum hefur fjölgað mest, eða um 65% og hefur fjöldi þeirra farið úr 26 þúsundum upp í 43 þúsund. Ekki er ólíklegt að fjölgun þeirra nái um eða yfir 75% þegar tölur fyrir desember berast.

Bandaríkjamönnum hefur fjölgað um 52% það sem af er ári þegar miðað er við allt síðasta ár og Svisslendingum um 33%. Þá hefur Þjóðverjum, sem er þriðji stærsti einstaki hópur ferðamanna til Íslands, fjölgað um 18% á árinu.

Rússum fækkar

Rússum hefur aftur á móti fækkað talsvert og voru þeir í lok nóvember 4.700 á móti 7.964 í fyrra. Vandséð er að fjöldi þeirra fari yfir 5.000 á árinu. Þá eru Norðmenn og Danir enn undir tölum síðasta árs, en gætu verið á pari þegar desembertölurnar hafa borist. Aðrar þjóðir voru komnar yfir tölur síðasta árs áður en desember mánuður rann upp.

Ekki er óalgengt að sjá stóra hópa ferðamanna á þekktum …
Ekki er óalgengt að sjá stóra hópa ferðamanna á þekktum ferðamannastöðum eða á ferð um Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engar gífurlegar tölur í kínversku samhengi

Aðspurð út í þennan mikla áhuga Kínverja og hvort eitthvað sérstakt sé þar að baki segir Ólöf að hún telji almenna athygli á Íslandi og stórfelda fjölgun kínverskra ferðamanna um allan heim eiga stóran þátt þar í. Bendir hún á að Kínamarkaður sé utan markaðssetningarramma Íslandsstofu, enda um mjög stóran markað að ræða sem erfitt og dýrt sé að fara inn á nema með mikla fjármuni. Fjölgun um 20-30 þúsund á milli ára séu þá engar gífurlegar tölur í kínversku samhengi vegna fjölda landsmanna. Þetta sýni aftur á móti fjölgun viðskiptatækifæra Íslendinga í sambandi við þjónustu við Kínverja.

Á samdráttarhliðinni segir hún að aðstæður heima fyrir fari langt með að útskýra væntanlega samdrátt ferðamanna frá Rússlandi, en gjaldmiðill landsins hefur hrunið og dýrara er fyrir almenning í Rússlandi að ferðast til annarra landa en fyrir ári síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert