Andlát: Málmfríður Sigurðardóttir

Málmfríður Sigurðardóttir fyrrverandi alþingismaður.
Málmfríður Sigurðardóttir fyrrverandi alþingismaður.

Málmfríður Sigurðardóttir, fyrrverandi alþingiskona, lést á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri á mánudagskvöldið, 88 ára að aldri.

Málmfríður var fædd á Arnarvatni í Mývatnssveit 30. mars 1927. Foreldrar hennar voru Sigurður Jónsson, skáld og bóndi þar, hálfbróðir Jóns Jónssonar, alþingismanns í Múla, og kona hans Sólveig Hólmfríður Pétursdóttir frá Gautlöndum, húsmóðir, dóttir Péturs Jónssonar, alþingismanns og ráðherra.

Eiginmaður Málmfríðar var Haraldur Jónsson, frá Einarsstöðum í Reykjadal, fæddur 5. janúar 1912, dáinn 11. apríl 1976, bóndi á Jaðri í Reykjadal.

Börn Málmfríðar og Haraldar, sem öll lifa móður sína, eru Þóra (fædd 1948), Sigurður Örn (1951), Jón Einar (1953), Helgi (1956), Margrét (1958), Hólmfríður Sólveig (1962) og Sigríður (1964).

Málmfríður lauk kvennaskólaprófi í Reykjavík 1947. Hún var húsmóðir á Jaðri í Reykjadal 1948 til 1992, ráðskona á sumrum hjá Vegagerð ríkisins 1968 til 1985, aðstoðarráðskona við Kristnesspítala á vetrum 1981 til 1985, í fullu starfi frá 1985 til vors 1987. Hún var kennari við grunnskóla Reykdæla 1967 til 1979 og bókavörður við Amtsbókasafnið á Akureyri frá 1992 þar til hún lét af störfum vegna aldurs.

Málmfríður var kjörin á Alþingi fyrir Samtök um kvennalista 1987 og sat á þingi til 1991. Kjörtímabilið á undan hafði hún sest á þing sem varaþingmaður. Hún var formaður þingflokks Samtaka um kvennalista 1990 til 1991 og var í Vestnorræna þingmannaráðinu 1989 til 1991.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert