„Þessir menn eru algjörar hetjur“

Maðurinn var fluttur með sjúkraflugi Mýflugs í slæmum veðurskilyrðum. Mynd …
Maðurinn var fluttur með sjúkraflugi Mýflugs í slæmum veðurskilyrðum. Mynd úr safni. Skapti Hallgrímsson

Nokkuð alvarlegt vinnuslys átti sér stað á Blönduósi í dag þegar ungur maður festi fótinn á sér í svokölluðum ullartætara sem rífur niður ull í verksmiðju Ístex. Samstarfsmönnum mannsins tókst að losa hann en fóturinn var illa útleikinn eftir slysið.

„Það var óskað var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar til þess að flytja manninn en þeir gáfu það frá sér og gátu ekki sinnt því einhverra hluta vegna. Þá vildi svo heppilega til að sjúkraflugvél frá Mýflugi var akkúrat að klára sjúkraflug frá Akureyri til Reykjavíkur og þeir gátu komið beint til okkar,“ segir Höskuldur Erlingsson, varðstjóri lögreglunnar á Blönduósi. 

„Þessir menn eru algjörar hetjur,“ segir Höskuldur um Mýflugsmenn og kann þeim góðar þakkir en veðurskilyrði voru alls ekki góð á Blönduósi í dag. Hann segir að bæði Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði hafi verið ófærar í dag og því engin önnur úrræði sem stóðu til boða en flugleiðin.

Höskuldur segir að á svona dögum sýni það sig bersýnilega hversu mikið hagsmunamál það sé fyrir landsbyggðarfólk bæði að hafa flugvöll og að fært sé til Reykjavíkur en samkvæmt upplýsingum frá Mýflugi var notast við neyðarbrautina svokölluðu bæði í sjúkraflugi frá Akureyri og frá Blönduósi en illfært var um aðrar brautir Reykjavíkurflugvallar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert