70,8 m/s vindhviða mældist

Veðurhamurinn var þvílíkur að malbik flettist af vegum austanlands.
Veðurhamurinn var þvílíkur að malbik flettist af vegum austanlands. mbl.is/Jens Garðar Helgason

Mesti vindhraði sem mældist í ofsaveðrinu sem gekk yfir Austurland í fyrrinótt og fram eftir gærdeginum var á Vatnsskarði eystra. Þar var vindurinn 46,3 m/s þegar hvassast var og sterkasta vindhviðan var 70,8 m/s. Í Papey mældist 38,6 m/s vindur og hviða upp á 53,0 m/s. Í Hallsteinsdal mældist 34,6 m/s vindur og 57,9 m/s vindhviða.

Trausti Jónsson veðurfræðingur greindi frá því á síðunni Hungurdiskum í gær að lægsti sjávarmálsþrýstingur á landinu hefði mælst á Kirkjubæjarklaustri klukkan fimm í gærmorgun, 930,2 hPa. Það var lægsti loftþrýstingur sem mælst hafði á landinu frá 24. desember 1989 en þá mældust 929,5 hPa á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Hinn 5. janúar 1982 mældist 929,9 hPa þrýstingur einnig á Stórhöfða.

Lægsti loftþrýstingur sem mælst hefur hér á landi mældist á Stórhöfða 2. desember 1929 og var hann 920 hPa. Þetta kemur fram í grein eftir Trausta á vef Veðurstofunnar. Þar segir m.a. að loftþrýstingur fari mjög sjaldan niður fyrir 940 hPa og þá aðeins í stuttan tíma og á tiltölulega litlu svæði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert