Elsta málið var 714 daga gamalt

Fjöldi flóttafólks hefur aukist hratt á Íslandi eins og í …
Fjöldi flóttafólks hefur aukist hratt á Íslandi eins og í öðrum löndum Evrópu. AFP

Meðaltími meðferðar hælismála hjá kærunefnd útlendingamála var 229 dagar á árinu 2015. Meðaltími málsmeðferðar Dyflinnarmála var 251 dagur fyrir sama tímabil. Þetta kemur fram í samtali mbl.is við dr. Hjört Braga Sverrisson formann nefndarinnar.

Hann segir meðaltímann litast þónokkuð af eldri málum sem nefndin fékk á sitt borð frá ráðuneytinu þegar hún var sett á fót um síðustu áramót. Elsta málið við þau skipti var þá orðið 714 daga gamalt. 

Frétt mbl.is: Óháð nefnd mun sinna kærunum

Nefndin hefur núna lokið öllum þeim málum sem á hennar borði voru þá. 90% hælismála sem eru til meðferðar hjá nefndinni núna eru þannig frá seinni hluta ársins. Með tímanum hefur meðaltími málsmeðferðar einnig styst umtalsvert.

Meðaltími málsmeðferðar í Dyflinnarmálum var 251 dagur á árinu en á undanförnum tveimur mánuðum hefur tíminn verið 144 dagur. Meðaltími annarra mála er 229 dagar sé litið heilt yfir árið en síðustu tvo mánuðina hefur tíminn verið 181 dagur.

„Ég reikna með að ný hælismál sem koma inn í janúar verði afgreidd á um fimm mánuðum, en Dyflinnarmál á um þremur mánuðum,“ segir Hjörtur. Segist hann byggja matið á því að fjöldi kærðra hælismála aukist ekki um meira en 25-30% frá meðaltali núlíðandi árs. 

„Það er auðvitað breyta sem við höfum ekki stjórn á.“

Útlendingastofnun hefur vægast sagt sætt þrýstingi í samfélaginu.
Útlendingastofnun hefur vægast sagt sætt þrýstingi í samfélaginu. mbl.is/Kristinn

Mun fleiri mál en búist var við

Spurður hvort umfang nefndarstarfsins hafi verið rétt áætlað segir Hjörtur ekki geta svarað fyrir þá sem sömdu fjárlög fyrir árið.

„En af þeim gögnum sem ég hef kynnt mér þá sýnist mér sem umfang starfseminnar hafi verið talsvert undiráætlað. Úr þessu virðist hins vegar hafa verið bætt í fjárlögum fyrir komandi ár. Ef forsendur breytast ekki verulega þá ættu biðtímar að halda áfram að styttast þar til þeir ná markmiði stjórnvalda um 90 daga á seinni hluta næsta árs.“

Álag nefndarinnar þyngdist svo um munaði frá og með septembermánuði. Kom þá til landsins ófyrirséður og með öllu fordæmalaus fjöldi flóttafólks.

„En með fjölgun starfsmanna sem ríkisstjórnin heimilaði, og ákveðnum skipulagsbreytingum innanhúss, hefur okkur tekist að ná tökum á þessum fjölda, að minnsta kosti tímabundið,“ segir Hjörtur.

Frétt mbl.is: 25 Sýrlendingar hafa sótt um hæli

Konur og börn hvílast eftir að hafa gengið yfir landamærin …
Konur og börn hvílast eftir að hafa gengið yfir landamærin á milli Grikklands og Makedóníu. Vandi Evrópuríkja vegna flóttafólks hefur stigmagnast á árinu. AFP

Ný lög myndu breyta starfinu til hins betra

Hjá meðlimum nefndarinnar standa einnig vonir til að starfsemin verði gerð skilvirkari með nýjum lögum um útlendinga.

„Frumvarpið verður vonandi lagt fyrir Alþingi sem fyrst en breytingarnar í því byggja á reynslu af starfi nefndarinnar þetta fyrsta ár, sem og á reynslu nágrannaþjóða okkar.“

Líkt og málum er háttað núna kemur nefndin að jafnaði saman einu sinni í viku, og er þá heilan dag að störfum. Í janúar er hins vegar stefnt á að hittast tvisvar í viku en þá hálfan dag í senn.

„Breytingarnar í frumvarpsdrögunum leggja til fjölgun nefndarmanna og að starfsemin geti verið skipulögð í deildum. Þetta myndi opna fyrir frekari fjölgun funda og um leið bæta sérhæfingu og auka afköst og skilvirkni.

Kærunefnd útlendingamála hefur að undanförnu verið töluvert í umræðu samfélagsins þar sem þrýst hefur verið á hana til að úrskurða hælisleitendum í hag. Í því skyni hafa meðal annars verið stofnaðar sérstakar Facebook-síður þar sem þess er krafist að útlendingar fái hér dvalarleyfi. Þá hafa að minnsta kosti fimm þúsund manns skrifað undir áskorun til nefndarinnar um að snúa við ákvörðun Útlendingastofnunar og veita fjölskyldu nokkurri umsvifalaust dvalarleyfi.

Frétt mbl.is: Óttast að lögreglan sæki þau

Þrýstingur á nefndina er bæði beinn og óbeinn að sögn …
Þrýstingur á nefndina er bæði beinn og óbeinn að sögn Hjartar. Mbl.is/Golli

Beinn og óbeinn þrýstingur

„Ég get í raun ekki svarað fyrir aðra nefndarmenn en auðvitað er mikil pressa á okkur, bæði varðandi málshraða og einnig beinn og óbeinn þrýstingur varðandi niðurstöður,“ segir Hjörtur og bendir á að öll hælismál séu ítarlega rannsökuð af nefndinni.

„Við skoðum skýrslur mannréttindasamtaka eins og Human Rights Watch, Amnesty International, Freedom House, o.fl., skýrslur sem önnur lönd hafa unnið um upprunaland viðkomandi hælisleitenda, skýrslur alþjóðastofnanna eins og Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (OHCHR).

Þá er starfandi fjöldi samtaka sem vinnur að réttindum flóttamanna og hælisleitenda og þeirra skýrslur er skoðaðar í tengslum við mál sem eru til meðferðar hjá okkur. Við erum í góðu sambandi við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna og þeir hafa verið mjög hjálplegir við að útvega upplýsingar sem ekki er að finna í skýrslum.“

Ítarleg umfjöllun mbl.is: „Hvað er heima?“

Hjörtur segir hælisleitendur eiga sér öfluga talsmenn hjá Rauða krossinum.
Hjörtur segir hælisleitendur eiga sér öfluga talsmenn hjá Rauða krossinum. mbl.is/Árni Sæberg

Njóta stuðnings öflugra talsmanna

Þá segir Hjörtur hælisleitendur njóta stuðnings mjög öflugra talsmanna sem jafnan séu á vegum Rauða krossins.

„Þeirra greinargerðir hjálpa þar sem þær benda á ýmis atriði sem rannsaka þarf sérstaklega. Við gerum það sem við getum til að vinna þessa vinnu sem best til að tryggja að okkar niðurstöður séu réttar og að réttindi þeirra sem koma til landsins og sækja um vernd séu virt að fullu.“

Að lokum segir hann ákvarðanir nefndarinnar byggja á trúnaðargögnum sem eru hulin fyrir augum almennings.

„Við sem vinnum við þennan málaflokk verðum því auðvitað að hafa skilning á því að þjóðfélagsumræðan byggir oft á takmörkuðum upplýsingum um hvert mál og einnig það lagaumhverfi sem við erum bundin af.“

Barn kúrdísks flóttafólks í búðum þeirra í Frakklandi. Myndin er …
Barn kúrdísks flóttafólks í búðum þeirra í Frakklandi. Myndin er tekin á Þorláksmessu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert