Íslendingar handteknir í Brasilíu

Fortaleza er í Brasilíu.
Fortaleza er í Brasilíu. Kort/Google

Tveir Íslendingar hafa verið handteknir í Fortaleza í Brasilíu, grunaðir um fíkniefnasmygl. Um er að ræða 26 ára karlmann og 20 ára konu. Samkvæmt lögregluyfirvöldum reyndust þau hafa 4 kg af kókaíni í fórum sínum, en efnið var falið í smokkum og í farangri fólksins.

Lögreglu var gert viðvart um fólkið um kl. 22 laugardaginn 26. desember, en fram kom að þau hefðust við á móteli í Fortaleza. Þegar þangað var komið fékk lögregla upplýsingar um að fólkið hefði flutt sig á annan gististað, þar sem þess var vitjað.

Auk fíkniefnanna gerði lögregla upptæka spjaldtölvu, tvo farsíma og 1.600 íslenskar krónur. Parið er sagt hafa ráðgert að fljúga burt um alþjóðaflugvöll.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu mun ráðuneytið veita fjölskyldum fólksins upplýsingar eftir getu. Málefni Íslendinga í Brasilíu heyra undir sendiráðið í Washington. Þrír ræðismenn eru í Brasilíu en fjarri Fortaleza.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert