Ætlaði til Spánar en endaði á Lesbos

Flóttafólk kemur á uppblásnum bát til grísku eyjarinnar Lesbos - …
Flóttafólk kemur á uppblásnum bát til grísku eyjarinnar Lesbos - mynd úr safni. AFP

Hekla María Friðriksdóttir hefur verið á grísku eyjunni Lesbos frá því í nóvember en þar er hún sjálfboðaliði fyrir samtökin Lighthouse relief. Samtökin hafa slegið upp litlum búðum á norðurströnd eyjunnar þar sem sjálfboðaliðar og starfsmenn taka á móti flóttafólki sem siglir frá Tyrklandi og til eyjunnar á gúmmíbátum. Á Þorláksmessu tókst Heklu Maríu ásamt sjö öðrum sjálfboðaliðum að bjarga 31 flóttamanni frá drukknun þegar bátur lenti á oddhvössu grjóti með þeim afleiðingum að hann sprakk. 

Sjá fyrri frétt mbl.is: Heyrðu ösk­ur fólks­ins í sjón­um

Samtökin sem að Hekla María vinnur fyrir kalla sig Lighthouse relief eins og áður sagði en þau hafa komið upp litlum skammtímabúðum fyrir flóttafólk. „Það er notalegur kósý staður fyrir fólk til þess að koma og jafna sig, fá sér örlítið að borða og hvíla sig. Ef þau koma seint á kvöldin eða á nóttunni getur það sofið þar áður en þau halda áfram út í aðrar búðir og áfram norður,“ segir Hekla María.

Blaðamanni leikur forvitni á að vita hver tildrög þess urðu að Hekla María lagði leið sína til Lesbos að aðstoða flóttafólk. Hún svarar því til að upphaflega hafi hún stefnt að því að ferðast til Frakklands, Spánar, Portúgal og Marokkó en að einhvernvegin hafi hún endað á því að fara á puttanum til Belgrad þar sem hún fór á pólitíska listahátíð sem henni þótti mjög áhugaverð. Þar hitti hún fólk sem var á leið til serbnesku-makedónsku landamæranna og hún slóst í för með þeim. 

„Ég fór með þeim í byrjun október og fór þaðan til serbnesku-búlgörsku landamæranna og þaðan til slóvensku-króatísku áður en ég kom til Lesbos,“ segir hún. 

Um það bil einn bátur á dag

Hún segir að sem betur fer komist flestir bátar flóttafólks að landi án vandkvæða og að slys líkt og átti sér stað á Þorláksmessu sé óalgengt. Þó hafi það gerst að flóttafólk drukkni þó að undanfarið sé minna um það. Það sé sökum þess að búnaður sé orðin betri í bland við færri komur flóttamanna en þangað sem hún dvelur kemur u.þ.b. einn bátur á dag.

Hekla María segir ennfremur að hún hafi alltaf ætlað sér að verja jólunum erlendis og að hún sé glöð að hún ákvað að verja þeim á Lesbos enda sér þar mikið af skemmtilegu og góðu fólki. Ferðalagið segir hún að eigi að vara fram undir ágúst n.k. en hún stefnir á að halda til annarra staða í Evrópu þegar fram líða stundir fyrst og fremst til þess að heimsækja fólkið sem hún hefur kynnst á ferðalagi sínu. 

Þá segir hún að töluvert sé um mannaskipti í hjálparstarfinu. „Flestir koma í allavega viku en það eru miklar róteringar, margir sem koma í tvær vikur. Mestu leyti er þetta frá Evrópu, slatti af Ameríkönum en einn og einn héðan og þaðan. Svo er reyndar mikið af heilbrigðisstarfsfólki frá Ísrael,“ segir Hekla María að lokum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert