Buðu móðurinni áfallahjálp

Jóhannes hringdi í móðurina, Klöru, nú í morgunsárið.
Jóhannes hringdi í móðurina, Klöru, nú í morgunsárið. Ljósmynd/Arnar Þórðarson

Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó bs. hefur beðið móður ungs drengs afsökunar, en drengurinn var hætt kominn í gær þegar barnavagn hans festist hálf­ur inni í stræt­is­vagni sem var ekið af stað. Þá bauð hann henni áfallahjálp í boði Strætó, sem hún afþakkaði.

„Hún upplýsti mig um  hvaða vagn var að ræða og nú munum við skoða hvað fór úrskeiðis í þessu tilfelli,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is, en hann hringdi í móðurina, Klöru Arnalds, nú í morgunsárið.

Frétt mbl.is: Keyrði af stað með barnavagn í dyrunum

„Í fyrsta lagi eiga dyrnar ekki að geta lokast ef eitthvað er á milli þeirra, og í öðru lagi á vagn ekki að geta farið af stað ef dyrnar eru opnar,“ segir hann og bætir við að umræddur öryggisbúnaður hafi komið í strætisvagna í kringum árið 1990.

Augljóslega eitthvað klikkað

„Ég sá þetta fyrst á mbl.is í gærkvöldi og þá fórum við að skoða málið hér innanhúss. Ég kunni þó ekki við að hringja í hana svona síðla kvölds.“

Jóhannes segir að atvik sem þessi séu sem betur fer ekki algeng. „Það eru þó örugglega nokkur tilvik, og þá alltof mörg, þar sem eitthvað er að klemmast á milli. En þetta á að vera þannig úr garði gert að vagninn geti ekki tekið af stað.“

Klara gat þess í fyrri uppfærslu sinni á Facebook um málið að bíl­stjór­inn hafi ekki yrt á hana, hvað þá beðist af­sök­un­ar, þegar hún sýndi hon­um farmiðann sinn skelfingu lostin.

Spurður segir Jóhannes að þau samskipti verði einnig til skoðunar innan veggja Strætó. „Við erum að reyna að koma hér inn ákveðinni þjónustumenningu og það er svona að síast hægt og rólega inn. En þarna hefur augljóslega eitthvað klikkað.“

Update af strætómálinu mikla: Ég fékk rétt í þessu símtal frá Jóhannesi Rúnarssyni, framkvæmdastjóra Strætó, þar sem...

Posted by Klara Arnalds on Tuesday, January 5, 2016
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert