„Viðurkenning fyrir félagið og íslensku þjóðina“

Mynd/Björk Vilhelmsdóttir

„Ég lít ekki á þetta sem persónulega viðurkenningu heldur viðurkenningu fyrir okkar félag, Ísland Palestína, og þeim stuðningi sem sýndur hefur verið af íslensku þjóðinni,“ segir Sveinn Rúnar Hauksson sem í kvöld var gerður að heiðursborgara Palestínu. Viðurkenninguna veitti ráðherrann Majdi Khalidi en vegabréfið undirritað Mahmmoud Abbas, forseti Palestínu. 

Sveinn Rúnar hefur gegnt formennsku í félaginu Ísland Palestína frá árinu 1991 en félagið var stofnað árið 1987. „Árið 1989, tveimur árum eftir að félagið var stofnað, samþykkti Alþingi tímamótaályktun samhljóða um grundvallaratriði Palestínumálsins, rétt Ísraels, grundvallarréttindi palestínsku þjóðarinnar og afnám hernámsins með tilvísun í ályktanir Sameinuðu Þjóðanna,“ segir Sveinn Rúnar. 

„Steingrímur Hermannson, forsætisráðherra, fór svo á grundvelli þessarar ályktunar til Túnis í maí 1990. Sú heimsókn var tímamótaatburður þar sem það var í fyrsta sinn sem vestrænn þjóðarleiðtogi heimsótti Yassir Arafat, forseta Palestínu. Arafat var á þessum tíma skilgreindur sem hryðjuverkamaður af Ísraelum og Bandaríkjamönnum,“ bætir Sveinn Rúnar við. 

„Félagið hefur starfað á grundvelli þessa og fengið mikinn hljómgrunn, síðast með ályktun Alþingis um fullveldi Palestínu. Á afmælisdegi félagsins árið 2011 var líka áréttaður réttur flóttafólks til að snúa aftur heim.“

Hlaut nýtt vegabréf

Sveinn Rúnar hlaut í viðurkenningarskini nýtt vegabréf. „Þessar athafnir Íslendinga eru ástæðan fyrir því að ég stend hér í dag eftir að hafa verið formaður félagsins í 25 ár og fæ nýtt undirritað vegabréf til merkis um að vera heiðursborgari í Palestínu, sennilega fyrstur Íslendinga. Mér þykir óskaplega vænt um það og er stoltur af þeim heiðri sem mér er hér sýndur. En ég ítreka að þetta er viðurkenning fyrir félagið okkar og allan þann aragrúa Íslendinga sem veitt hafa Palestínu stuðning sinn í gegnum árin.“

Um athöfnina sjálfa segir Sveinn Rúnar: „Þessi athöfn var látlaus og stóð í um hálftíma. Við áttum viðræður um það sem er ofarlega á baugi hjá mér. Ég er staddur í Palestínu enn einu sinni með hjálpartæki, efni í gervifætur, sem þarf að komast til Gaza. Ég á sjálfir brýnt erindi þangað, ekki bara persónulegt til þess að hitta vini mína og fjölskyldur þeirra sem misst hafa sína nánustu, heldur til þess að fylgja eftir þremur verkefnum sem félagið stendur að núna.“

„Í fyrsta lagi gervilimaverkefnið, í öðru lagi til að styða við félag til stuðnings kvenna og barna sem orðið hafa fyrir heimilisofbeldi og svo í þriðja lagi verkefni sem ríkisstjórn Íslands og utanríkisráðuneytið hefur stutt myndarlega við. Það snýr að því að útvega heilsugæslum á Gaza nauðsynlegustu lyfin.“

Bauð forsetanum til Íslands

Sveinn Rúnar segist ekki hafa komist til Gaza enn sem komið er. „Ísraelsk stjórnvöld hleyptu mér ekki inn í fyrra og í ár, en það liggur nú fyrir umsókn, undirrituð af palestínskum stjórnvöldum, og verið er að vinna að því að koma mér inn í landið.“

Að lokum nýtti Sveinn Rúnar tækifærið og bauð forsetanum í heimsókn til Íslands. „Ég áréttaði við forsetan að þótt ég væri ekki maðurinn til að bjóða honum í opinbera heimsókn til Íslands, þá myndi ég bjóða hann velkominn til landsins í nafni félagsins og þess stóra meirihluta Íslendinga sem styður Palestínu, en hann hefur aldrei komið í opinbera heimsókn hingað til lands.“

Sveinn Rúnar Hauksson tekur við viðurkenningunni frá Majdi Khalidi, ráðherra …
Sveinn Rúnar Hauksson tekur við viðurkenningunni frá Majdi Khalidi, ráðherra í Palestínu. Mynd/Aðsend
Mynd/Aðsend
Mynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert