SVFR framlengir umsóknarfrestinn

Stangveiðifélag Reykjavíkur hefur ákveðið að framlengja frest til þess að sækja um veiðileyfi í félagsúthlutun félagsins en upphaflega átti hann að renna út á miðnætti í kvöld. Ástæðan er mikið álag á kerfi og síma SVFR.

Fresturinn er því framlengdur til klukkan 23:59 sunnudaginn 10. janúar. Eftir það tekur við vinna við að úthluta leyfum og er reiknað með að henni ljúki 25. janúar. Fimmtudaginn 28. janúar verður síðan dregið um veiðileyfi í Elliðaánum fyrir opnum tjöldum í húsnæði SVFR við Rafveituveg. Samkvæmt upplýsingum frá félaginu er áhuginn mikill í ár enda hafi veiðin verið afskaplega góð á svæðum þess í fyrra.

Þá hafi SVFR verið að gera 10 ára samning um veiðiréttinn í Varmá og er ætlunin að koma upp húsi þar í sumar, koma betri reglu á skiptingar í ánni og bæta merkingar veiðistaða og efla veiðieftirlit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert