Til athugunar fyrir sölu banka

Óttar Guðjónsson.
Óttar Guðjónsson.

Sala íslensku bankanna þriggja verður vandasamt verk og getur haft veruleg áhrif á flæði fjármagns á næstu misserum, segir Óttar Guðjónsson hagfræðingur í grein í Morgunblaðinu í dag.

Hún fer hér á eftir:

Til athugunar fyrir sölu banka

Nú er sú staða uppi að ríkisvaldið á tvo af þremur stóru bankanna í landinu og söluandviði þess þriðja mun renna í ríkissjóð. Samtals eigið fé þessara banka er m.v. síðustu tölur frá Seðlabankanum rétt um 630 milljarðar króna. Heildarinnlán í bankakerfinu voru um 1.876 milljarðar í lok nóvember.

Heildareign lífeyrissjóða landsins í innlendum hlutabréfum og -sjóðum var í október sl. um 600 milljarðar króna og áttu þeir innlán að fjárhæð 150 milljarðar. Þá var heildarverðmæti allra skráðra hlutabréfa á markaði í lok nóvember 999 milljarðar.

Það ætti því að vera öllum augljóst að sala bankanna þriggja verður vandasamt verk og getur haft veruleg áhrif á flæði fjármagns á næstu misserum. Miðað við nýjustu uppgjör bankanna þriggja er eiginfjárstaða þeirra allra mjög góð. Hér að neðan er tafla með helstu tölum úr uppgjörum þeirra eftir þriðja ársfjórðung 2015:

Af þessari töflu sést að eiginfjárstaða bankanna er afar sterk og er það eðlilegt þar sem FME og Seðlabanki hafa lagt á það áherslu að svo væri og hafa Arion og Íslandsbanki ekki greitt hluthöfum arð frá því þeir voru stofnaðir haustið 2008. Það eru engar líkur á því að finna kaupanda að banka sem ekki kemur til með að greiða eigendum sínum arð. Því er augljóst að það verður að heimila bönkum að greiða arð í framtíðinni og gera til þeirra sambærilegar kröfur um eigið fé og í nágrannalöndum okkar. Í nýlegri greiningu Óttars Snædal hjá Samtökum atvinnulífsins kom fram að algengt eiginfjárhlutfall smærri banka í nágrannalöndum okkar er milli 8 og 10% og stærri bankar milli 4 og 6%, samanborið við tæp 20% hjá okkur. Þetta segir mér að mjög líklegt sé að með einbeittum vilja megi greiða út fast að helmingi þess hlutafjár sem bankarnir ráða yfir í dag, án þess að þjónusta, hlítni við lög eða reglur skaðist. Þannig að ef bankarnir væru seldir fjárfestum á 60 til 80% af virði eigin fjár, þá gætu fjárfestarnir greitt sér út stóran hluta kaupverðsins á tiltölulega fáum árum.

Bankarnir greiði ríkinu arð

Til að koma í veg fyrir þetta tel ég mikilvægt að ríkið, sem eigandi bankanna, skoði vandlega hvort ekki sé rétt að endurskipuleggja fjármögnun þeirra áður en þeir verða seldir, með því að minnsta kosti að greiða allt óþarft eigið fé út sem arð. Til viðbótar tel ég rétt að skoða hvort uppskipting bankanna í stofnanir sem fjármagna sig með innlánum og aðrar sem fjármagna sig á markaði gæti liðkað fyrir enn frekari útgreiðslu til ríkissjóðs, minnkað bankakerfið í heild og aukið samkeppni.

Höfundur er hagfræðingur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert