Plastiðjan flytur til Reykjavíkur

Altjón varð í brunanum að kvöldi 23. nóvember sl.
Altjón varð í brunanum að kvöldi 23. nóvember sl. mbl.is/Styrmir Kári

Stefnt er að því að framleiðsla hefjist að nýju hjá Plastiðjunni í húsnæði á Héðinsgötu í Reykjavík eftir hálfan mánuð. Altjón varð hjá fyrirtækinu að kvöldi 23. nóvember á síðasta ári þegar eldur kviknaði í Gagnheiði 17 á Selfossi. 

Eigendur Plastiðjunnar hafa lagt kapp við uppbyggingu síðustu vikur og segir framkvæmdastjóri fyrirtækið vel í stakk búið að takast á við stór verkefni.

„Uppbyggingin hefur gengið mjög vel hjá okkur. Við erum að koma okkur fyrir á Héðinsgötu 2 í Reykjavík með hluta af framleiðslunni sem við vorum með fyrir austan. Við vorum svo heppin að þarna beið eftir okkur húsnæði sem var tilbúið fyrir okkur. Það gerði það að verkum að við vorum mun fljótari að sinna þörfum viðskiptavinum okkar,“ segir Axel Óli Ægisson, framkvæmdastjóri Plastiðjunnar, í samtali við mbl.is.

Fengu tækifæri til að hagræða

Fyrirtækið mun annars vegar flytja inn vörur frá erlendum framleiðendum og hins vegar framleiða vörur sem engin leið var að leysa af hólmi nema að framleiða aftur.  „Markmiðið okkar eftir brunann númer eitt, tvö og þrjú að sjá til þess að viðskiptavinirnir yrðu ekki fyrir vöruvöntun. Það hefur tekist ljómandi vel,“ segir Axel Óli.

Bruninn var mikið áfall en framkvæmdastjórinn er jákvæður og lítur á björtu hliðarnar. „Við höfum fengið tækifæri til þess að hagræða og við erum betur í stakk búin til að takast á við stór verkefni núna. Ekki það, við vorum vel í stakk búin til að takast á við stór verkefni,“ bætir hann við.

Axel Óli segir húsnæðið við Héðinsgötu mjög gott og tilbúið fyrir matvælavinnslu. Þar sem allt eyðilagðist í brunanum þurfti meðal annars að kaupa nýjar vélar og fylgdi því gríðarlegur kostnaður. Fyrirtækið var vel tryggt. „Sjóvá hefur staðið sig alveg óaðfinnanlega,“ segir Axel Óli

Aka til og frá Reykjavík á hverjum degi

Allir starfsmenn fyrirtækisins eru búsettir á Selfossi og munu þeir því fara til Reykjavíkur á hverjum degi. Enn á eftir að koma í ljós hvort allir starfsmennirnir kjósi starfa áfram þrátt fyrir breytt fyrirkomulag. „Við erum búin að tryggja það að tryggingin haldist,“ segir Axel Óli.

„Við höfum fundið fyrir gríðarlegum stuðningi frá okkar viðskiptavinum og samvinnan hefur verið mjög góð við þá. Við höfum leyst úr öllu sem upp hefur komið, við erum í sjálfu sér í stakk búin til að takast á við enn frekari viðskipti,“ segir framkvæmdastjórinn að lokum.

Frá eldsvoðanum að Gagnheiði 17 á Selfossi þar sem Plastiðjan …
Frá eldsvoðanum að Gagnheiði 17 á Selfossi þar sem Plastiðjan var til húsa Ljósmynd Kristján Bergsteinsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert