Ósammála sýn forsætisráðherra

Reiturinn séður frá Arnarhóli.
Reiturinn séður frá Arnarhóli. PK arkitektar

Nýbyggingar á svokölluðu Hafnartorgi, við hlið Lækjartorgs, eru til þess fallnar að tengja saman Hörpuna, hafnarsvæðið og gamla miðbæinn. Þetta segir Gísli Steinar Gíslason, stjórnarformaður Landstólpa, sem er ósammála þeirri sýn sem Sigmundur Davíð forsætisráðherra lýsir í Morgunblaðinu í dag.

Landstólpar vinnur að byggingu sjö húsa á reitnum, við hlið Lækjartorgs milli Lækjargötu og Tollhússins.

„Við teljum að það hafi tekist vel til með að brjóta þennan reit upp. Við lögðum okkur í líma við það og höfum einnig unnið með söguna á svæðinu. Við teljum byggingarnar  vera í sögulegu samhengi og það hefur tekist vel til að brjóta reitinn upp. Við reyndum að gera það í eins miklu mæli og við gátum en við viljum gera byggingarnar hluta af miðbænum en ekki eitthvert eyland. Við erum að reyna vanda okkur þarna og erum að fara í margar metnaðarfullar lausnir,“ sagði Gísli.

Á myndinni t.v. má sjá hvar aðgengi verður að sameiginlegum …
Á myndinni t.v. má sjá hvar aðgengi verður að sameiginlegum bílakjalla Hörpu og Hafnartorgs. PK arkitektar

Byggingarnar á reitnum telja um 30 þúsund fermetra og stendur til að þar verði 80 íbúðir, 8 þúsund fermetrar af verslunarrými og 7 þúsund fermetrar af skrifstofurými. Þá verður kjallari undir reitnum með eitt þúsund bílastæðum sem verður samtengdur bílakjallara Hörpu.

Gísli segir hönnunina enn fremur hafa verið unna í samræmi við fyrirliggjandi deiliskipulag. „Við keyptum þessa lóð á sínum tíma af Sítus, sem var í eigu ríkisins og borgarinnar, og deiliskipulagið fylgdi með eins og það er. Við erum bara að vinna eftir því. Það skýtur skökku við að ríkið selji frá sér lóðina með gildu deiliskipulagi og fari svo að gagnrýna það.“ Það deiliskipulag sem liggur fyrir segir Gísli enn fremur ekki vera fullnýtt. „Til dæmis við Tryggvagötuna er húsið einni hæð lægri en heimild er til fyrir.“ 

Séð frá horni Kolaportsins við Geirsgötu.
Séð frá horni Kolaportsins við Geirsgötu. PK arkitektar

Hönnun bygginga segir Gísli verða að taka mark á framþróun í samfélaginu en Hafnartorgsreitnum er ætlað að tengja svæðið við Hörpu við miðbæinn og aftur styrkja tengingu svæðisins út að slippnum og út á Granda þar sem hann segir mjög áhugaverða þróun hafa átt sér stað.

„Skrifstofubyggingin okkar er einhvers konar tenging milli Hörpunnar og miðbæjarins, þetta er steinbygging sem við léttum með því að setja mikið gler í hana. Svo kemur nett bygging við hlið hennar sem tengist Lækjartorginu og gróft yfirbragð dökku bygginganna mynda skírskotun í pakkhús sem stóðu þarna áður. Við erum mjög ánægðir með það hvernig til tókst og skipulagsráð borgarinnar var mjög ánægt með þetta á sínum tíma,“ sagði Gísli.

Steypuvinna á reitnum mun skv. áætlun hefjast í mars og verklok eru áætluð vorið 2018 en allar byggingarnar munu rísa samtímis. Þegar hefur allt verslunarhúsnæði á reitnum verið selt fasteignafélaginu Regin og segir Gísli það vera í viðræðum við fjölmarga áhugasama aðila um rekstur á staðnum.

Dagur ánægður með Hafnartorgið

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri birti í dag færslu á Facebook þar sem hann fagnaði umræðu um arkitektúr og uppbyggingu en sagði hönnunina á Hafnartorginu eiga að tryggja góð tengsl gömlu miðborgarinnar og Hörpu annars vegar og Hverfisgötu og Kolaportsins hins vegar.

Hver muni hafa sína skoðun á niðurstöðunni, segir Dagur, en lýsir sjálfur ánægju með niðurstöðuna: „Arkitektúrinn reynir að skapa hverju húsi sinn karakter og kallast víða á við sögu staðarins, sbr. nafnið Hafnartorg. Hann verður sjálfsagt seint óumdeildur en ég held að allir sem hafa komið að þessu vandasama verkefni í gegnum árin séu sammála um að verkefnið hefur verið unnið af metnaði og hefur þróast vel.“

Innfelldu horni ljósu byggingarinnar undir súlu er ætlað að skírskota …
Innfelldu horni ljósu byggingarinnar undir súlu er ætlað að skírskota til eldri húsa, s.s. við Apótekið. PK arkitektar
Göngugata verður milli húsanna.
Göngugata verður milli húsanna. PK arkitektar
PK arkitektar



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert