Eyðileggja smækkaða útgáfu Lakagíga

Á nokkrum stöðum í Eldvörpum kemur reykur upp úr hrauninu, …
Á nokkrum stöðum í Eldvörpum kemur reykur upp úr hrauninu, eins og um nýlegt hraun sé að ræða. Það er aftur á móti frá 13. öld.

Gígaröðin í Eldvörpum er eins og smækkuð útgáfa af Lakagígum og það sem meira er að þau eru aðgengileg flestum á hvernig bíl sem er og aðeins í hálftíma fjarlægð frá alþjóðaflugvelli. Þetta segir Ellert Grétarsson, áhugamaður um umhverfisvernd á Reykjanesi og ljósmyndari, en hann hefur undanfarin ár ítrekað bent á það sem hann telur eyðileggingu svæðisins ef farið verður í tilraunaboranir á svæðinu eins og fengist hefur leyfi til fyrir HS Orku.

Ellert segir Eldvörp vera fágætar jarðmyndir á heimsvísu, enda um að ræða gígaröð sem myndist á nútíma í jarðsögulegum tíma eftir að ísaldarjöklar hverfa. „Svo ungar jarðmyndanir eru fátíðar og sérstakar á heimsvísu,“ segir Ellert.

Eldvörp eru rétt hjá Bláa lóninu. Ellert segir svæðið rétt …
Eldvörp eru rétt hjá Bláa lóninu. Ellert segir svæðið rétt við mesta þéttbýlissvæði landsins og aðeins hálftíma frá alþjóðaflugvelli. Það bjóði því upp á mikil tækifæri.

Mikil verðmæti í næsta nágrenni við höfuðborgina

Leggur hann mikla áherslu á að Eldvörp eru rétt við mesta þéttbýlissvæði landsins og með það fyrir augum að þetta sé í raun smækkuð útgáfa af Lakagígum felist mjög mikil verðmæti fyrir ferðaþjónustuna í að eiga svona stað í næsta nágrenni við höfuðborgina.

Nýlega var meðal annars fjallað um myndskeið sem Ellert setti saman á vefnum Grindavik.net, en þar sýnir hann meðal annars myndir sem teknar eru af svæðinu úr dróna.

Ellert bendir á að í mati sínu á umhverfisáhrifum á svæðinu segi Umhverfisstofnun meðal annars að um óafturkræft rask á mosagrónu nútímahrauni sé að ræða verði farið í framkvæmdir á staðnum. „Við megum ekki gleyma að ósnortin náttúra er ekki síður náttúruauðlind,“ segir hann og bætir við að samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu komi meira en 80% ferðamanna hingað til lands til að upplifa slíka náttúru. „Þetta fer ekki saman, ferðamenn koma ekki hingað til að skoða virkjanir, línuvegi eða lagnir, heldur til að upplifa náttúru,“ segir Ellert.

Ellert Grétarsson
Ellert Grétarsson

Ferðaþjónustan aðeins farin að vakna

Ferðaþjónustan er aðeins farin að vakna varðandi þetta að sögn Ellerts, meðal annars með að dreifa umferðinni meira en bara á Gullna hringinn og suðurströndina. Segir hann þetta vera eitt dæmið um stað sem geti orðið vinsæll á komandi tímum. Ítrekar hann á ný samlíkinguna við vinsælan áfangastað í dag talsvert austar á landinu, en auðveldari aðkomu að þessum gígum. „Þetta er smækkuð útgáfa af Lakagígum í hálftíma fjarlægð frá alþjóðaflugvelli,“ segir Ellert.

Grímur: boranir hafa ekki mikil áhrif

Um þrjá kílómetra til austurs frá gígaröðinni er Bláa lónið. Grímur Sæmundssen, forstjóri þess og formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, tekur ekki undir áhyggjurnar. Segir hann að forsvarsmönnum Bláa lónsins hafi verið kynnt málið á sínum tíma og síðan þá verið upplýstir um hvert skref ferlisins. „Við gerðum ekki athugasemdir við þessa nálgun og teljum að eins og standa eigi að málum að unnið verði í sátt við náttúruna,“ segir hann.

Grímur segir að sér sé ekki kunnugt um að Eldvörp hafi verið mikið notuð sem skoðunarstaður fyrir ferðamenn í gegnum árin og segist ekki telja að boranirnar muni hafa mikil áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu. Hann tekur þó fram að enn eigi eftir að koma í ljóst hvort og þá hvernig verði virkjað og þá verði að hafa vara á hvað varðar óafturkræfar framkvæmdir en „ég tel að þarna sé og verði staðið að málum með vönduðum hætti þannig að gígaröðin í heild eða ímynd hennar skaðist ekki,“ segir hann.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins.
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Verið að gjöreyðileggja ásýnd svæðisins“

Eins og greint hefur verið frá í fyrri greinum hér á mbl.is er deilt um það milli HS Orku og talsmanna umhverfisverndar hvort rannsóknaboranir á svæðinu fari saman við umhverfisvernd. Ellert telur svo ekki vera og bendir á að ef reisa eigi fjóra eða fimm 4-5 þúsund fermetra borplön í næsta nágrenni við gígana sé verið að breyta miklu. „Þótt ekki verði hróflað við gígunum, þá er þarna verið að gjöreyðileggja ásýnd svæðisins,“ segir Ellert.

Ellert hefur undanfarinn áratug notað mikið af frítíma sínum til að skoða Reykjanesið og hefur tekið fjölda mynda á svæðinu. Hann segir Eldvörp ásamt Krýsuvík vera þá tvo staði á nesinu sem séu kynngimagnaðastir. „Ég veit ekki um annan stað þar sem hægt er að fara ofan í einn gíg og ganga yfir í þann næsta,“ segir Ellert, en milli tveggja gíga liggur hraunhellir sem gengt er um. Segir hann að þar geti fólk horft ofan í sprunguna þar sem hraunið lak til baka niður þegar gígurinn tæmdi sig. Lýsir hann því þannig að þar geti maður horft inn í innviði eldgígsins og séð hvað gerðist nákvæmlega.

Hluti gíganna í Eldvörpum.
Hluti gíganna í Eldvörpum.

Lítt snortinni náttúruperlu breytt í iðnaðarsvæði

Að lokum bætir hann við að það sem geri staðinn enn sérstæðari og dulúðlegri sé að á nokkrum stöðum rjúki úr svæðinu umhverfis gígana eins og gosi sé nýlokið. „Þú ert að breyta lítt snortinni náttúruperlu í iðnaðarsvæði,“ segir Ellert að lokum um fyrirhugaðar framkvæmdir á staðnum.

Segir aðsóknina ekki hafa verið mikla í Eldvörp

Eggert Sólberg Jónsson, verkefnastjóri Reykjanes Geopark, segir ásókn í svæðið hingað til ekki hafa verið mikla. Þannig hafi helstu hóparnir sem sæki það heim verið gönguhópar á leið um svæðið og nokkrir minni hópar á vegum ferðaþjónustuaðila, en þar hafi ekki verið hinn hefðbundni massatúrismi. Efast hann jafnframt um að svæðið og gígarnir sjálfir myndu þola slíkan ágang. Segir Eggert að framkvæmdaaðilar þurfi að passa vel að hrófla ekki við gönguleiðum á svæðinu og taka tillit til ferðaþjónustu sem er þar nú.

Aðspurður hvort hann telji að með þessu sé verið að fórna víðáttu og ósnortnu landslagi segir Eggert að búið sé að raska svæðinu nú þegar að einhverju leyti. Þá sé stutt í önnur víðáttusvæði á Reykjanesinu sem standi óröskuð og þar sé slík upplifun í boði. Segir hann að með þessum framkvæmdum sé ekki verið að raska öllum skaganum þó að vissulega muni þetta hafa einhver áhrif á þessu tiltekna svæði. Þá tekur hann fram að hingað til hafi virkjanir notið talsverðra vinsælda hjá ferðamönnum og að hann vonist til að HS Orka haldi slíku starfi áfram komi til framkvæmda á staðnum.

Núverandi borpallur EG-2, sem er á milli tveggja gíga í …
Núverandi borpallur EG-2, sem er á milli tveggja gíga í gígaröðinni. Holan var boruð árið 1983.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert