Samstarf við Pírata spennandi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, sagði í þættinum Eyjunni í dag það vera áhugaverðan kost að mynda stjórn Pírata og Sjálfstæðisflokks. Píratar hefðu víða skírskotun til kjósenda en þyrftu að fara í meiri málefnavinnu áður en hægt væri að fullyrða um slíkt samstarf.

Spurð um hvort hún hefði áhuga á stjórnarmyndun Pírata og Sjálfstæðisflokks sagði Áslaug svo vera.

Frétt mbl.is: Kári ósáttur við upptöku Pírata

„Ég held að það væri ekki slæmt. Píratar eru sumir hverjir frjálslyndir en aðrir miklir vinstrimenn. Þau eru mjög misjöfn sem eru núna inni á þingi og ná þess vegna kannski til mjög stórs hóps. Helgi Hrafn nær til mjög hægri sinnaðs frjálslynds hóps og Birgitta til vinstrimanna þannig að ég held það væri ekki vitlaust. “

Áslaug sló þó nokkra varnagla fyrir hugsanlegt samstarf. „Píratar þurfa fyrir næstu kosningar að setja fram meiri stefnu í ýmsum málum. Það þarf að sjá hvar þeir standa í efnahagsmálum og ýmsum stórum málum áður en það er hægt að segja meira um það hvort það sé mögulegt.“

Eftir þáttinn sagði Áslaug í samtali við mbl.is að ákveðnar áherslur Pírata féllu þó ekki að stefnu Sjálfstæðisflokksins þó a' samstarf flokkanna væri spennandi kostur, „en kannski ekki ef einu málin sem þau einblína á eru stjórnarskrármálin og ESB. Það eru ekki þau málefni sem fara á oddinn hjá okkur þó að við teljum mikilvægt t.d. að skoða stjórnarskrána.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert