Auðveldara fyrir kýr að fá þjónustu

Nærri 400 manns mættu á íbúafund sem haldinn var í Hvolnum á Hvolsvelli í kvöld en fundarefnið var skerðing á þjónustu heilsugæslunnar í bænum. Á fundinum fræddi Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSu, fundargesti um ástæður fækkunar opnunardaga en um er að ræða tilraun til að bæta frekar heimaþjónustu í Rangárþingi.

Meðal annarra frummælenda voru Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri og Guðmundur Svavarsson framleiðslustjóri SS og íbúi. Að loknum ræðum var orðið gefið laust og tóku margir til máls, að því er fram kemur í frétt á vef Rangárþings eystra.

Sveitarstjórnarfólki var tíðrætt um lélega upplýsingaveitu og erfiðleika í samskiptum við forstjóra og eins og aðrir íbúar lýstu þeir furðu sinni yfir fækkun á opnunardögum þegar íbúum fjölgar sem og fjöldi ferðamanna sem streymir gegnum Rangárvallasýslu eykst stöðugt. Einnig var mikið rætt um þjónustu heilsugæslunnar utan dagvinnutíma,“ segir í fréttinni.

Bjarni Böðvarsson í Þinghól var meðal þeirra sem kvaddi sér hljóðs og sagði auðveldara fyrir veika kýr að fá læknisþjónustu í heimabyggð utan hefðbundins tíma en mannfólkið. Uppskar hann dynjandi lófatak fyrir frásögn sína.

Á fundinum afhenti sveitarstjóri Herdísi undirskriftalista með nöfnum 652 einstaklinga sem óska eftir því að hætt verði við að skerða opnunartíma heilsugæslunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert