„Ferðasjúki barþjónninn“ snýr aftur

Maðurinn hlaut 6 mánaða fangelsi vegna brotanna.
Maðurinn hlaut 6 mánaða fangelsi vegna brotanna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrir helgi var 34 ára eistneskur karlmaður dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir fjársvik þegar hann sveik út flugmiða hjá Icelandair á kreditkort sem ekki voru í hans eigu. Þetta er í annað skiptið sem hann er dæmdur fyrir slíkt athæfi hér á landi. Þá hefur maðurinn fengið fjölda dóma erlendis vegna svipaðra brota. Í fórum hans fannst mikið magn af óútfylltum brottfararspjöldum annarra flugfélaga, óútfylltra boðsmiða og beiðnabækur erlendra fyrirtækja. Héraðsdómur taldi ekki rétt að gera þessa muni upptæka, nema brottfaraspjald sem hann hafði notað til að komast til Íslands.

„Ferðasjúki barþjónninn“

Maðurinn var árið 2007 nefndur „ferðasjúki barþjónninn“ í fjölmiðlum, en þá var hann dæmdur í 4 mánaða fang­elsi fyr­ir að svíkja í 9 skipti út farmiða hjá Icelanda­ir, sam­tals að and­virði rúm­lega 800 þúsund krón­ur. Hafði hann þá nýtt sér aðstöðu sína sem barþjónn í London til að komast yfir kreditkortanúmer sem hann notaði á ólögmætan hátt.

Í dómi héraðsdóms í nýja dómnum kemur fram að í sumar hafi hann svikið út farmiða í flug hjá Icelandair fyrir samtals 2.212 evrur, eða samtals um 327 þúsund krónur. Voru greiðslur fyrir flugið framkvæmdar með bandarísku greiðslukorti sem tilheyrði öðrum manni sem ekki vissi af færslunum.

Áður hafði hann verið settur á svartan lista hjá Icelandair vega fyrra brots, en hann breytti nafni sínu örlítið við bókunina síðasta sumar og komst þannig fram hjá síum félagsins.

Með fullt af óútfylltum brottfararspjöldum

Þegar tollverðir stoppuðu manninn í Keflavík var honum gert að sæta upptöku á beiðnabók frá hótelkeðjunni Hyatt Regency, þremur stimplum sem tengjast flugrekstri og 243 óútfylltum brottfararspjöldum frá Iberia, United, Roytal Jordanian, Alitalia og Aeroflot Russian Airlines. Þá var einnig í fórum hans 17 óútfylltir boðsmiðar merktir United, 17 nælur merktar ýmsum flugfélögum og óútfylltir merkimiðar ætlaðir áhafnarmeðlimum ýmissa flugfélaga.  Þá var hann með nokkurn fjölda kreditkorta sem báru með sér að vera ekki í hans eigu.

Skýring mannsins á vörslu hlutanna var að hann hefði verið sendur í viðskiptaferð til Íslands og að þeir væru hluti af viðskiptum sínum. Hann neitaði þó að tjá sig nánar um þessi viðskipti en nefndi á nafn erlenda konu sem átti að hafa sent hann. Eftirgrennslan lögreglu bar ekki með sér að viðkomandi kona væri í raun til og neitaði ákærði að aðstoða við að ná tali af henni. Þá vildi hann ekkert frekar gefa upp um viðskiptin, en sagði að munanna hefði verið aflað með lögmætum hætti.

Viðurkenndi maðurinn að hafa ritað nafn sitt vitlaust þegar hann skráði sig í flugið, en það hafi verið gert til að komast fram hjá svörtum lista flugfélagsins.

Löng brotasaga um alla Evrópu

Maðurinn hefur víða hlotið dóm áður, en árið 2005 hlaut hann níu mánaða fangelsisdóm fyrir fjársvik á Spáni. Hann hlaut árið 2009 dóm í Danmörku fyrir þjófnað og ítrekuð fjársvik og var gert að sæta fangelsi í eitt ár og sex mánuði. Árið 2014 var ákærði sakfelldur fyrir fjársvik í Bretlandi og honum gert að gegna samfélagsþjónustu í 140 klukkustundir og greiða ríflega 1800 sterlingspund í sekt. Í Þýskalandi hefur ákærði hlotið þrjá dóma. Árið 2004 var ákærði sakfelldur fyrir þjófnað og árið 2005 hlaut hann eins árs og níu mánaða fangelsisdóm fyrir þjófnað og fjársvik. Þá var hann árið 2009 sakfelldur fyrir fjársvik og ofbeldi gagnvart opinberum starfsmanni og honum gert að sæta fangelsi í tíu mánuði, skilorðsbundið til þriggja ára. Eins og fyrr segir fékk hann einnig fjögurra mánaða dóm á Íslandi fyrir rúmlega 8 árum.

Var maðurinn dæmdur til sex mánaða fangelsis í þetta skiptið, en til frádráttar kemur um mánaðar gæsluvarðhald sem hann sætti í ágúst. Þá sætir maðurinn upptöku á einu brottfararspjaldi í flug sem hann tók frá Póllandi til Íslands síðasta sumar. Var hann dæmdur til að greiða Icelandair upphæðina sem hann sveik út ásamt vöxtum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert