Höfðu samráð við hagsmunaaðila

mbl.is

Rangt er að stjórnvöld hafi ekki haft samráð við hagsmunaaðila áður en tekin var formleg ákvörðun um stuðning Íslands við þvingunaraðgerður vestrænna ríkja gegn Rússlandi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu þar sem brugðist er við ummælum Jens Garðars Helgasonar, formanns Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), í útvarpsþættinum Í vikulokin í Ríkisútvarpinu á laugardaginn.

Þannig segist utanríkisráðuneytið hafa átt samráðsfund með framkvæmdastjóra SFS 12. mars 2014, tveimur dögum áður en málið hafi verið tekið fyrir í ríkisstjórn. Ráðuneytið hafi síðan sent frá sér fréttatilkynningu um stuðning Íslands 17. mars og fjórum dögum síðar hafi ákvörðunin verið birt í Stjórnartíðindum. Ennfremur hafi fleiri fundi verið haldnir með hagsmunaaðilum í sjávarútvegi á fyrri stigum málsins og fullt samráð ennfremur verið haft við utanríkismálanefnd Alþingis um málið að sögn ráðuneytisins. 

Þvingunaraðgerðirnar gegn Rússum studdar af NATO

Utanríkisráðuneytið segir að Bandaríkin og Evrópusambandið hafi ekki veitt eigin fyrirtækjum undanþágur frá þvingunaraðgerðunum gegn Rússa. Þvinganirnar feli ekki í sér almennar viðskiptaþvinganir og bandarísk og evrópsk fyrirtæki geti því áfram stundað viðskipti við Rússland á þeim sviðum sem þvinganir vestrænna ríkja og rússneskra stjórnvalda nái ekki til. Þá liggi ekkert fyrir um að Hvíta-Rússland og Kasakstan loki á útflutning frá Íslandi.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Ennfremur er vísað í ummæli þess efnis að hvorki NATO né Sameinuðu þjóðirnar standi að þvingunaraðgerðunum gegn Rússum sem sé til dæmis ástæða þess að Tyrkir séu ekki aðilar að þeim. Bent er á að NATO geti sem varnarbandalag ekki beitt viðskiptaþvingunum og Sameinuðu þjóðirnar komi ekki að málum þar sem Rússar hafi neitunarvald í öryggisráði þeirra. Hins vegar hafi NATO lýst yfir stuðningi við aðgerðirnar með samþykkt allra aðildarríkja sinna.

Sömuleiðis er meðal annars gerð athugasemd við þau ummæli formanns SFS að engir markaðir finnist fyrir frystar loðnuafurðir utan Rússlands. Það senst ekki að mati utanríkisráðuneytisins. Þannig hafi fryst loðna og loðnuhrogn fyrir verið seld til Kína fyrir 1,3 milljarða króna fyrstu 11 mánuði síðasta árs. Fryst loðna hafi að sama skapi verið seld til Úkraínu á árumum 2012-2013 fyrir 4 milljarða króna og fyrir um hálfan milljarða 2014-2015.

Ýmsir bandarískir ráðamenn heimsótt Ísland

Ennfremur er vakið máls á því að Norðmenn hafi ekki fengið niðurfellingu á tollum inn í Evrópusambandið fyrir makrílafurðir frekar en Íslendingar. Hið rétta sé að sambandið hafi fallist á að skipta á tollkvótum Noregs í síld fyrir aukinn kvóta í makríl. Á sama tíma hafi verið samið um aukna kvóta í öðrum tegundum fyrir Ísland. Bent er á að þó ð viðskiptaþvinganir Rússa komi illa við Ísland hafi afkoma sjávarútvegsins verið ein sú besta á síðasta ári.

Ráðuneytið lýkur yfirlýsingunni með því að gagnrýna þau ummæli formanns SFS að hingað til lands hafi enginn háttsettur bandarískur ráðamaður komið undanfarin ár. Það sé ekki rétt. Þannig hafi meðal annars Robert Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Victoria Nuland, varautanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Benjamin Ziff, aðstoðarráðherra úr utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, heimsótt Ísland á síðasta ári auk bandariskra þingmanna.

„Hins vegar er ljóst að einstaka stefnumál Íslands, líkt og hvalveiðar, hafa haft áhrif á tíðni heimsókna bandarískra ráðamanna. Ísland rekur hins vegar sjálfstæða utanríkisstefnu og lætur ekki undan þess konar þrýstingi, enda grundvallast íslensk utanríkisstefna á virðingu fyrir alþjóðalögum. Það á við um bæði rétt til hvalveiða sem og framferði rússneskra yfirvalda í Úkraínu,“ segir að lokum í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert