Koma til landsins á morgun

Hinn þriggja ára gamli Kevi ásamt systur sinni.
Hinn þriggja ára gamli Kevi ásamt systur sinni. Ljósmynd/DV

Von er á albönsku fjölskyldunum tveimur sem nýlega fengu íslenskan ríkisborgararétt til landsins um klukkan 14.30 á morgun með flugi WOW air frá Berlín. Hermann Ragnarsson sem staðið hefur að því undanfarið að undirbúa komu þeirra til landsins segir í samtali við mbl.is að fyrstu næturnar muni fjölskyldurnar gista á hóteli. „Þau verða á hóteli á meðan að við græjum íbúðirnar þeirra í sameiningu. Þau velja sjálf hvað þau vilja fá í íbúðirnar og hvernig þau vilja hafa þær.“

Fjölskyldurnar hafa báðar fengið íbúðir á Íslandi. Önnur í Ásbrú í Keflavík en hin á Bragagötu í Reykjavík. Hermann mun taka á móti fjölskyldunum ásamt túlki á Keflavíkurflugvelli.

Á morgun mun því hinn þriggja ára gamli langveiki Kevi snúa aftur til landsins en mál hans vakti mikla reiði meðal almennings. Drengurinn var ásamt fjölskyldu sinni fluttur af landi brott í skjóli nætur hinn 10. desember síðastliðinn.

Hermann segir líðan Kevi góða eftir atvikum. „Þegar hann fær kvef eða einhverja flensu þarf hann að komast undir læknishendur. Hann er með eitthvert smákvef núna en þó ekkert alvarlegt.“ Hann segir Kevi vera með þau meðul sem hann þurfi með sér en síðast þegar hann var hér í tíu mánuði þurfti hann tvisvar að leggjast inn á spítala og dvelja þar í nokkra daga í senn.

Frétt mbl.is - 1.200 ætla að mótmæla fyrir Kevi 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert