Lögreglumaður leystur frá störfum tímabundið

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. Mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglumaðurinn sem var handtekinn fyrir áramót vegna gruns um óeðlileg samskipti við brotamenn hefur verið leystur frá störfum tímabundið. Þetta staðfestir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri í Reykjavík, við mbl.is.

Segir hún að manninum hafi verið veitt lausn frá embætti um stundarsakir, en mál hans verði rannsakað af nefnd sérfróðra manna samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Tekur nefndin afstöðu til þess hvort rétt sé að veita lausn að fullu eða láta viðkomandi taka aftur við embætti sínu.

Nefndin sem um ræðir er svokölluð 27. greinar nefnd, en hún getur staðfest eða snúið við ákvörðun embættisins. Er hún kennd við 27. Grein laganna sem nefnd voru hér að ofan. Hljóðar greinin sjálf á eftirfarandi hátt:

27. gr. Nú hefur embættismanni verið veitt lausn um stundarsakir fyrir meintar misfellur í starfi og skal mál hans þá þegar rannsakað af nefnd sérfróðra manna svo að upplýst verði hvort rétt er að veita honum lausn að fullu eða láta hann taka aftur við embætti sínu. Stjórnvaldi eða starfsmanni er þó ætíð heimilt að vísa máli til rannsóknar [lögreglu].1)

Í nefnd, sem rannsaka skal mál embættismanns skv. 1. mgr., skulu eiga sæti þrír menn, sérfróðir um stjórnsýslu. [Ráðherra]2) skipar nefndina, þar af formann hennar og varamann hans til fjögurra ára í senn. Aðrir nefndarmenn taka sæti í nefndinni í hvert sinn og skal annar þeirra tilnefndur af þeim ráðherra sem í hlut á en hinn af samtökum ríkisstarfsmanna sameiginlega. Ef samtökin koma sér ekki saman skal [ráðherra]2) skipa nefndarmanninn án tilnefningar. Nefndin skal láta í ljós rökstutt álit á því hvort rétt hafi verið að víkja embættismanni frá störfum um stundarsakir.

Sigríður segir að ákvörðun embættisins muni gilda á meðan á rannsókn málsins stendur eða þangað til niðurstaða 27. greinar nefndarinnar liggi fyrir. Aðspurð hvort önnur niðurstaða hefði komið til greina eftir atburði síðustu tveggja vikna sagði hún: „Þetta er okkar niðurstaða eftir að hafa farið yfir stöðu málsins.“

Þá er ákvörðun embættisins kæranleg til innanríkisráðherra innan þriggja mánaða frá því að ákvörðun var tilkynnt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert