Veit af vilja innan samfélagsins

Sýrlensk stúlka tekur til hendinni í flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna nálægt …
Sýrlensk stúlka tekur til hendinni í flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna nálægt líbönsku borginni Baalbek á nýársdag AFP

Það er vel hægt að nota stór orð til að lýsa stöðunni sem kominn er upp vegna stríðsátaka í heiminum. Fjöldi flóttamanna er fordæmalaus en 4,4 milljónir Sýrlendinga eru á flótta samkvæmt opinberum tölum. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra á fundi í fundaröð Háskóla Íslands, Fræði og fjölmenning, sem fram fór í dag. Sýrland og flóttamenn voru viðfangsefni fundarins sem var haldinn í samstarfi við íslenska utanríkisráðuneytið og fulltrúa frá alþjóðlegu, frjálsu félagasamtökunum Norwegian Refugee Council (NRC).

„Við heyrum fréttir daglega af stöðunni í Sýrlandi og af fólki sem reynir í örvæntingu sinni að komast í öruggt skjól. Við finnum öll fyrir skyldunni til að bregðast við og aðstoða þá sem eru í neyð staddir,“ sagði Eygló.

Fyrsti hópurinn kemur 20. janúar

Í erindi sínu greindi Eygló frá viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við óöldinni í Sýrlandi og þeim áskorunum sem hafa komið upp vegna aukins straums flóttamanna til Evrópu. En það skref sem hefur verið rætt um hvað mest er líklega koma sýrlenskra flóttamanna til Íslands. Í september greindi ríkisstjórnin frá því að tveimur milljörðum yrði varið í flóttamannamál. Stór hluti þess fer í að taka á móti flóttafólki og kemur fyrsti hópurinn í næstu viku, 20. janúar.

Sagði hún frá því hvernig auknu fjármagni í málaflokknum yrði varið á þrjá vegu. Í fyrsta lagi verður það notað til fjár­stuðnings við alþjóðastofn­an­ir og hjálp­ar­sam­tök sem vinna með flótta­fólki er­lend­is, s.s. Flótta­manna­stofn­un, Barna­hjálp, Neyðarsjóð og Mat­vælaaðstoð Sam­einuðu þjóðanna. Þá verður því einnig varið í móttöku flótta­fólks og hæl­is­leit­enda til Íslands, þar sem áhersla verði lögð á að hjálpa fólki að koma sér vek fyr­ir hér á landi, aðlag­ast sam­fé­lag­inu og hefja hér nýtt líf. Þá var einnig fjármagn sett í aðgerðir sem geta um­bylt og hraðað af­greiðslu hæl­is­um­sókna hér­lend­is, og til að bregðast við mik­illi fjölg­un þeirra.

Eygló á fundinum í dag þar sem hún kynnti aðgerðir …
Eygló á fundinum í dag þar sem hún kynnti aðgerðir íslenskra stjórnvalda í flóttamannamálum. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Viðurkenna það að vonin sé úti

Í erindi sínu benti Eygló á að það gæti orðið erfitt fyrir flóttafólkið að koma á stað eins framandi og Ísland. „Það er mikilvægt að muna að þau völdu ekki að fara, þau eru neydd til þess. Með því að ákveða að fara finnst eflaust sumum þeir vera með því að viðurkenna það að vonin er úti um að deilan í Sýrlandi verið útkljáð á næstunni. Þau eru í togstreitu við fortíð sína og framtíð.“

Eygló sagði jafnframt að móttaka flóttamanna væri verkefni sem samfélagið þyrfti að taka þátt í saman sem heild. Margir taka þátt í móttökunni og nefndi Eygló sjálfboðaliða Rauða krossinn í því samhengi.

Sagði hún jafnframt að landslagið á Íslandi þegar það kemur að flóttamönnum hafi breyst töluvert síðustu mánuði. Nefndi hún að á síðasta árið hafi 82 flóttamenn hlotið alþjóðlega vernd á Íslandi sem er töluvert meira en síðustu ár.

Gætum verið í sömu stöðu einn daginn

Ræddi hún um mikilvægi fjölskyldusameiningar og benti á að í síðustu viku hefðu tvær sýrlenskar fjölskyldur verið sameinaðar að nýju á Íslandi. „Maður getur ekki byggt sig aftur upp eftir áfall ef þú hefur stöðugar áhyggjur af fjölskyldumeðlimum,“ sagði Eygló. Þá nefndi hún mikilvægi þess að flóttamenn verði aðstoðaðir við að komast út á vinnumarkaðinn og öðlast menntun. Einnig þarf að sjá til þess að flóttamennirnir fái húsnæði og að menntun þeirra verði metin að verðleikum.

„Ég veit að það er mikill vilji til staðar í samfélaginu til þess að gera okkar besta til að taka vel á móti nýjum íbúum og gera það vel,“ sagði Eygló. „Við erum að verða vitni af fordæmalausri hreyfingu fólks á flótta í heiminum. Þetta er ekki eitthvað sem hættir á morgun eða á þessu ári eða næsta.“

Bætti hún við að um væri að ræða fólk sem hefði verið í mikilli hættu. „Hugsanlega einn daginn gætum við verið í sömu stöðu og því þurfum við að vera tilbúin til að hjálpa eins mikið og við getum.“

Sýrlensk börn leika sér nálægt flóttamannabúðum í Kýpur
Sýrlensk börn leika sér nálægt flóttamannabúðum í Kýpur AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert