20-25 bótaskyld tjón á Austurlandi

Snjóflóð féll við Aðalból 28. desember sl.
Snjóflóð féll við Aðalból 28. desember sl. mbl.is/Aðalsteinn Sigurðarson

Útlit er fyrir að á bilinu 20-25 mál sem komu upp vegna vatnsflóða og krapaskriða í ofsaveðri á Austurlandi 28. desember sl. og sjávarflóðs 30. desember falli undir bótaskyldu Viðlagatrygginga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðlagatryggingum, en þar segir að ekki sé útlit fyrir að bótaskyld tjón af hálfu VTÍ hafi orðið annars staðar en í Fjarðabyggð og mögulega í Breiðdalsvík.

„Tjón varð á fasteignum, lausafé og vatns- og fráveitum vegna vatnsflóða þann 28.
desember. Tjón varð einnig á fasteignum, lausafé, fráveitum og hafnarmannvirkjum vegna
sjávarflóða þann 30. desember. Vatnstjón varð á dvalarheimili þar sem 16 íbúðir skemmdust
á einum tjónsstað. Fjöldi tjónsstaða endurspeglar því ekki endilega umfang tjónamatsins í
heild,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir að áætlað sé að tjónamati verði lokið og matsskýrslur kynntar fyrir eigendum eigi síðar en um miðjan febrúar.

mbl.is