Erfitt að fara í sæðisbankann svona ungur

Matthías Orri Ísaksson.
Matthías Orri Ísaksson. Ljósmynd/Kraftur

Þegar tólf ára drengur kemur ásamt foreldrum sínum til læknis og kvartar undan verkjum í fæti er beinkrabbamein líklega ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann. Matthías Orri Ísaksson æfði fótbolta en einn daginn gat hann ekki lengur teygt fótinn eins og hann var vanur.

Læknirinn taldi að um vaxtaverki væri að ræða og drengurinn hélt áfram að sparka knettinum án þess að velta þessu mikið meira fyrir sér. Þegar leið á jukust verkirnir og fór Matthías lok í uppskurð sumarið 2007, eða skömm eftir að hann lauk grunnskólanámi. Í ljós kom illkynja æxli sem þurfti að fjarlægja.

Heimsóknin í sæðisbankann þar sem Matthías var látinn leggja inn sæði svo hann ætti meiri möguleika á því að eignast börn í framtíðinni var honum afar erfið lífsreynsla, enda var hann aðeins nýbyrjaður í framhaldsskóla. Í dag er hann 24 ára, á kærustu og tveggja ára dóttur. Hann er einn þeirra sem tekur þátt í vitundarvakningu Krafts, #ShareYourScar, deilir mynd af öri sínu sem liggur niður eftir fætinum og sagði mbl.is sögu sína.

Frétt mbl.is: Örið nær yfir hálfan líkamann

Frá vaxtarverkjum að illkynja krabbameini

Sumarið 2007 fór Matthías í fótboltaferðalag og lagðist síðan inn á sjúkrahús þar sem átti að skera hann upp vegna bólgu í fætinum sem hann hafði fundið til í fjögur ár. „Læknirinn sem skar mig upp heitir Halldór Jónsson og er bæklunarlæknir á Landspítalanum. Hann sagði við mig að þetta væri óeðlilegur vöxtur á beini þegar ég fer í uppskurðinn. Ég fer í uppskurðinn og eftir það segir hann mér og foreldrum mínum að þetta sé illkynja krabbamein,“ segir Matthías í samtali við blaðamann mbl.is.

Æxlið var ekki fjarlægt þar sem læknarnir vissu ekki á þessu stigi af hvaða gerð æxlið var. Tveir möguleikar komu til greina, annars vegar æxli sem er utan á beininu og grær inn í beinmerginn og hins vegar æxli sem fer úr beinmergnum og utan á beinið og er það síðarnefnda erfiðara viðureignar. Eftir hátt í þrjár vikur fékk fjölskyldan niðurstöðu.  „Þetta var betra af því verra,“ segir Matthías.

Eftir þetta hófst lyfjameðferð sem stóð yfir í þrjá mánuði. Vonast var til þess að hægt yrði að drepa eins og margar krabbameinsfrumur í æxlinu og mögulegt var áður en það yrði fjarlægt. Um haustið hóf Matthías nám í Menntaskólanum við Sund en það var þvert á ráðleggingar námsráðgjafa sem taldi hentugara fyrir hann að fara í fjölbrautaskóla.

„Ég vildi það ekki. Ég var mjög harður á því að ég vildi vera í MS. Ég var mjög lasinn þetta ár og mætti mjög lítið í skólann. Ég mætti í skólann með það í huga að halda í félagslífið og var í rauninni ekkert að pæla í náminu, ég setti það ekki í forgang á þessum tíma. Síðan féll ég á því ári eins og ég átti von á,“ segir Matthías.

Æxlið var jafn stórt og hnefi á manni

Eftir að lyfjameðferðin hafði staðið yfir í þrjá mánuði hélt Matthías til Lundar í Svíþjóð til að gangast undir aðgerð á fætinum. Áður en hann fór í aðgerðina var óvíst hvort hann myndi halda fætinum. Spurði hann skurðlækninn sem sagðist þurfa að opna hann í aðgerðinni áður en hann gæti svarað spurningunni.

Allt fór þó á besta veg og hélt Matthías fætinum. Æxlið var fjarlægt og fékk hann í raun nýtt hné fyrir utan hnéskelina sem hægt var að nota áfram. Skornir voru sautján sentímetrar upp lærlegginn og þrír sentímetrar niður í kálfann og skildi það eftir sig langt ör eftir fætinum. Þá voru setti pinnar upp í lærlegginn og niður í bein í kálfanum.

Eftir þetta tók við lyfjameðferð sem áætlað var að stæði í níu mánuði. „Hjá mér var það þannig að æxlið var í rauninni jafn stórt og hnefi á manni. Ef maður myndi líkja þessu við egg þá var skurnin bara dauð. Inni í æxlinu var mikið líf en utan um var allt dautt,“ útskýrir Matthías. Hann segir að það hafi verið töluvert áfall að fara í svona langa meðferð en læknarnir töldu öruggast að velja hana.

Fögnuðu saman litlu sigrunum

Í átaki Krafts valdi Matthías setninguna „Fagnaðu litlu sigrunum“ en það var einmitt það sem fjölskylda hans var dugleg að gera. Á meðan á löngu lyfjameðferðinni stóð var hann yfirleitt lagður inn á sjúkrahús á mánudegi eða þriðjudegi og útskrifaður á föstudegi.

Þá fór fjölskyldan til að mynda upp í sumarbústað eða eldaði góðan mat saman til að gera sér dagamun og brjóta ferlið upp. Af því að Matthías hafði ekki náð átján ára aldri vildu læknarnir skola lyfið úr líkamanum í hverri lyfjagjöf og því fékk hann allan skammtinn einn daginn og því næst vatn í æð næstu þrjá til fjóra daga.

Matthías er afar þakklátur vinum sínum fyrir að hafa verið duglegir að heimsækja hann á sjúkrahúsið og stytta honum stundir. „Ég á marga góða vini. Það voru rosalega margir sem komu til mín, það var eiginlega alveg ótrúlegt hvað ég var heppinn þar. Vinir mínir komu og sátu yfir mér í marga klukkutíma, þetta var mjög ljúft þegar þeir komu,“ segir hann.

Hætta þurfti lyfjameðferðinni eftir rúmlega sjö mánuði en þá var hjarta Matthíasar farið að stækka. Nokkrum dögum eftir að hann kom heim fékk Matthías streptókokkasýkingu í hnéliðinni. Sýkingin hafði náð að grafa sig undir beinið og liðinn og sögðu læknarnir í raun ótrúlegt að tekist hefði að bjarga fætinum. Matthías þurfti að dvelja á sjúkrahúsi í þrjá mánuði með sýklalyf í æð eftir að sýkingin kom upp.

Eftir sýklalyfjameðferðina var Matthías loksins útskrifaður af sjúkrahúsi. Þarna var komið fram á sumar árið 2008 og hóf hann nám á ný í MS um haustið. „Ég var aðeins að ströggla eftir þetta, mér leið ekki nógu vel. Maður vildi ekki segja neinum frá þessu [krabbameininu og lyfjameðferðinni], maður vildi ekki að fólk vorkenni manni. En ef einhver spurði var sjálfsagt að segja frá,“ segir Matthías.  

„Ég var svolítið feiminn, ég var kominn einu ári á eftir í skólanum og mér fannst fyrst eins og allir í bekknum litu á mig sem slugsa sem hefði fallið. Ég vildi ekki beint segja þeim að ég hefði greinst með krabbamein. En síðan urðum við góðir vinir.“

Unglingur með foreldrum sínum í sæðisbanka

Árið 2010, tveimur árum eftir að lyfjameðferðinni lauk, eignaðist Matthías kærustu og komst parið að því í byrjun árs 2013 að þau ættu von á barni. „Það var ekkert sjálfgefið eftir lyfjameðferðirnar. Ég var ótrúlega ánægður með það. Í lyfjameðferðinni þurfti ég að ganga í gegnum svo margt sem var svo ótrúlega óþægilegt í kringum foreldrana. Maður fékk ekki alveg að klára að vera unglingur,“ segir Matthías.  

Vegna lyfjameðferðanna var gert ráð fyrir að hann yrði ófrjór. Farið var með hann í sæðisbanka þar sem hann lagði inn sæði til geymslu fyrir framtíðina. „Maður þurfti að ganga í gegnum þetta svo að lífið gæti haldið áfram eftir þetta. Þessi sæðisbankaupplifun var örugglega það versta í ferlinu öllu.

Síðan þegar við heyrum að hún sé ólétt verð ég rosalega feginn, að vera ekki háður sæðisbanka. Þetta gefur manni ákveðið frelsi til þess að gleyma þessu betur. Þó að maður vilji kannski aldrei gleyma þessu alveg, í þessu sér hvað mörgum þykir vænt um mann og standa við bakið á manni, það er það sem maður vill muna. En síðan er hitt ekkert mjög fallegt en lærdómsríkt,“ segir Matthías að lokum.

Hann lítur björtum augum til framtíðarinnar með kærustu og dóttur sér við hlið en mun þurfa að fara í uppskurð á tíu til fimmtán ára fresti til að skipta út plastplötu sem er í hnéliðnum á milli járnhjara.

Á meðan á löngu lyfjameðferðinni stóð var Matthías yfirleitt lagður …
Á meðan á löngu lyfjameðferðinni stóð var Matthías yfirleitt lagður inn á sjúkrahús á mánudegi eða þriðjudegi og útskrifaður á föstudegi. Eggert Jóhannesson
Matthías dvaldi mikið á spítala vegna lyfjagjafa.
Matthías dvaldi mikið á spítala vegna lyfjagjafa. Úr einkasafni.
Fjölskyldan saman á ferðalagi.
Fjölskyldan saman á ferðalagi. Úr einkasafni.
Læknirinn á heilsugæslustöðinni taldi að um vaxtarverki væri að ræða.
Læknirinn á heilsugæslustöðinni taldi að um vaxtarverki væri að ræða. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert