Líkamsleit til sérstakrar skoðunar

Stúlkan var stöðvuð ásamt fleiri ungmennum í bíl í sumar.
Stúlkan var stöðvuð ásamt fleiri ungmennum í bíl í sumar. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Líkamsleit sem lögreglan á Vesturlandi gerði á 16 ára gamalli stúlku í sumar var ekki aðeins ólögleg heldur í engu samræmi við brot sem hún var grunuð um, að sögn Oddgeirs Einarssonar, lögmanns hennar. Hann hefur stefnt íslenska ríkinu til miskabóta vegna ólögmætra aðgerða lögreglu fyrir hönd stúlkunnar.

Stúlkan var stöðvuð ásamt öðrum ungmennum á svipuðu reki í bíl á leið frá Ólafsvík til Reykjavíkur í umdæmi lögreglunnar á Akranesi 21. ágúst í fyrra. Sagt var frá málinu á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Nafnlaus ábending hafði borist lögreglu um að ökumaður bílsins væri undir áhrifum fíkniefna, að sögn Oddgeirs. Á lögreglustöðinni á Akranesi var stúlkan svo látin afklæðast alveg í fangaklefa fyrir framan aðra stúlku sem hafði verið í bílnum. Lögreglukona lét hana svo beygja sig fram á meðan hún skoðaði kynfæri hennar og rass án snertingar.

Oddgeir segir að hvorki dómsúrskurður né samþykki hafi legið fyrir líkamsleitinni. Því hafi leitin verið ólögleg. Þá hafi barnaverndaryfirvöldum eða foreldrum ekki verið tilkynnt um hana áður. Þegar stúlkurnar voru færðar inn í fangaklefann vissi skjólstæðingur Oddgeirs ekki að til stæði að leita á henni með þessum hætti.

„Þetta var sérstaklega mikill miski vegna þess að þetta voru ólögmætar aðgerðir. Það voru hvorki dómsúrskurður né samþykki fyrir þessu og þetta var framkvæmt með aðila viðstaddan á meðan á þessu stóð og hún var barn að lögum. Þetta er nánast árás á kynfrelsi,“ segir lögmaðurinn.

Í engu samræmi við tilefnið

Það var ekki fyrr en eftir að Oddgeir hafði sent lögreglu bréf þar sem hann óskaði eftir öllum gögnum málsins sem skýrsla var gerð hjá lögreglunni á Vesturlandi um líkamsleitina. Hann segir að engir pappírar hafi verið til um skýrslutökur eða annað.

Eftir því sem Oddgeir best veit var ábendingin sem barst lögreglu ekki um stórfellt fíkniefnasmygl heldur um grun um fíkniefnaakstur. Ekkert réttlæti þá ítarlegu líkamsleit sem gerð var á stúlkunni og hún var ekki í neinu samræmi við tilefnið, að hans mati.

„Þetta er algert brot á meðalhófsreglu að okkar mati fyrir utan að þar er í eðli sínu ólöglegt að gera þetta,“ segir Oddgeir.

Verður leitað í nærbuxum hvers sem er?

Ekki náðist í lögregluna í Vesturlandi í dag. Á vef lögreglunnar birtist hins vegar tilkynning lögreglustjórans á Vesturlandi vegna málsins þar sem segir að það sé regla að sá lögreglumaður sem framkvæmir líkamsleit á einstaklingi sé af sama kyni og sá sem leitað er á. Lögreglustjóra sé ekki kunnugt um málareksturinn og hann muni ekki tjá sig um hann í fjölmiðlum. Hann hafi hins vegar tekið málið til sérstakrar skoðunar.

Í tilkynningunni segir hins vegar ekkert um lögmæti leitarinnar. Oddgeir segir að eina skýringin sem hann hafi fengið á framferði lögreglu hafi verið sú að algengt sé að ungmenni reyni að fela fíkniefni innan klæða.

„Maður spyr sig líka miðað við hvernig þetta liggur, er það nóg að maður hringi í lögregluna nafnlaust og þá sé leitað í nærbuxunum hjá hverjum sem er?“ spyr Oddgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert