„Fara alkóhólistar ekki í IKEA?“

mbl.is/Heiddi

„Hvort að ríkið selur þetta eða ekki finnst mér ekki skipta nokkru máli. Ef mönnum finnst það slæmt að ríkið skuli vera að selja þetta og ef menn eru sammála um að ríkið eigi ekki að sjá um sölu á áfengi - þá má bara selja ÁTVR,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í viðtali í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Auk hans var Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gestur þáttarins og ræddu þeir áfengisfrumvarpið svonefnda.

„Þetta er spurning um að vera ekki að setja áfengi fyrir augun á þeim sem falla fyrir því. Að ekki sé verið að blanda þessu saman við matvöru vegna þess að það er staðreynd að löngunin í mat, löngunin í sætindi og löngunin í áfengi - þetta blandast saman á vissan hátt,“ sagði Kári ennfremur í þættinum.

Vilhjálmur segir hins vegar í samtali við mbl.is að áfengi sé fyrir allra augum alla daga.

En getur það ekki verið skaðlegt að setja áfengi í matvöruverslanir?

„Fara alkóhólistar ekki í IKEA með konunni um jólin eða þangað þar sem auglýstur er jólabjór á öllum borðum? Fara þeir ekki á veitingastaði með vínveitingaleyfi, N1 úti á landi eða á kosningafundi hjá flokkunum?,“ spyr Vilhjálmur á móti og heldur áfram:

„ÁTVR er með yfirlýsta stefnu um að hafa verslanir við stofnbrautir þannig að þú sérð áfengisverslanir við allar helstu stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu þegar þú keyrir þar. Þeir færðu verslun sína út úr Firðinum í Hafnarfirði, sem var falin lengst inni í verslunarmiðstöðinni, og upp á Fjarðarhraun og máluðu heilt hús í einkennislitunum. Í Smáralind, stærstu verslunarmiðstöð landsins, má svo finna glerverslun við innganginn og í Kringlunni, næst stærstu verslunarmiðstöð landsins, er mjög áberandi vínbúð á jarðhæð.“

Bendir Vilhjálmur á að fari áfengi í verslanir þá verður það „falið inni í horni sem einungis hluti viðskiptavina mun sjá.“ 

„Frumvarpið gerir áfram ráð fyrir 20 ára aldurstakmarki, banni við auglýsingum, opnunartíma til 20 og að sterka vínið verði aðskilið,“ segir hann.

Fyrri fréttir mbl.is:

Segir yfirlýsinguna illa hugsaða

Ummæli Kára „ómakleg og ósönn“

Sömdu Hagar frumvarp Vilhjálms?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert