Forréttindi að vinna með Sigmundi

Matthías Imsland.
Matthías Imsland.

Það eru forréttindi að fá að vinna með forsætisráðherra að þeim málum sem eru framundan, en þar ber meðal annars að nefna átak sem þarf að ráðast í tengt samgöngumálum, áframhaldandi vinna við heilbrigðiskerfið og húsnæðismálin. Þetta segir Matthías Imsland, nýráðinn aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, í samtali við mbl.is.

Matthías kemur úr velferðarráðuneytinu þar sem hann hefur verið aðstoðarmaður ráðherra undanfarin ár. Hann segir að nú sé stóru hlutverki þar að mestu lokið og vísar þar til vinnunnar við húsnæðisfrumvörpin sem nú séu komin í hendurnar á Alþingi. Segir hann að þau muni hafa talsverð áhrif á framboð af ódýrari húsnæði fyrir almenning á komandi misserum.

Aðspurður hvernig komið hafi til að hann fluttist milli ráðuneytanna segir hann að Sigmundur hafi komið að máli við sig og spurt hvort hann hefði áhuga á að keyra áfram þessi helstu stefnumál ríkisstjórnarinnar með núverandi áhöfn. Segir Matthías verkefni sín fyrst og fremst vera þau sem Sigmundur muni fela honum í hvert og eitt skipti.

Nú þegar er einn aðstoðarmaður forsætisráðherra, Jóhannes Þór Skúlason. Matthías segir að þeir hafi aðeins stillt upp verkaskiptingu, en að vinna þeirra muni mjög líklega skarast mikið á komandi mánuðum.

Matthías er 41 árs gamall og á fimm börn 14 ára og yngri. Aðspurður hvernig gangi að sameina fjölskyldulífið og að vera aðstoðarmaður ráðherra segir hann að það sé alltaf kúnst að sameina vinnu og fjölskyldulíf, en hann eigi ung börn og muni auðvitað reyna að vera góður pabbi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert