Börn innflytjenda hafa það betra

Hagur barna af erlendum uppruna virðist hafa vænkað samkvæmt rannsókninni. …
Hagur barna af erlendum uppruna virðist hafa vænkað samkvæmt rannsókninni. Myndin er úr safni. Rax / Ragnar Axelsson

Breyting hefur orðið til batnaðar á aðstæðum barna af erlendum uppruna ef marka má niðurstöður nýrrar skýrslu UNICEF á Íslandi um skort barna. Hlutfallslega fleiri börn sem eiga foreldra sem fæddir eru á Íslandi bjuggu við skort árið 2014 en börn foreldra sem fæddir eru erlendis.

Skýrsla með niðurstöðum rannsóknar sem UNICEF á Íslandi lét gera á efnislegum skorti hjá börnum hér á landi sem kynnt var í dag leiddi í ljós að hlutfall barna sem eiga foreldri eða foreldra sem fæddir eru erlendis sem búa við skort hafi verið tæplega helmingi lægra árið 2014 en það var árið 2009. Það mældist 6,8% en til samanburðar bjuggu 9,4% barna sem eiga foreldra sem fæddust á Íslandi við skort í hittifyrra og var þar þreföldun frá því fimm árum áður.

Litið var til sjö sviða þar sem börn gætu liðið skort í rannsókninni; næringar, klæðnaðar, félagslífs, húsnæðis, menntunar, upplýsinga og afþreyingar. Staða barnanna af erlendum uppruna batnaði verulega hvað varðaði klæðnað, menntun og upplýsingar.

Þessi hópur barna skar sig hins vegar úr þegar kom að skorti að húsnæði sem er meðal annars skilgreindur sem þröngbýli og eftir því hvort nægileg dagsbirta berst inn um glugga húsnæðisins. Þannig voru börn innflytjenda líklegri til þess að líða skort á húsnæði en önnur börn. Alls bjuggu 16,9% barna sem eiga foreldra fædda erlendis við skort á þessu sviði. Jókst þessi skortur um 4% á fimm ára tímabilinu, bæði hjá börnum ef erlendum og innlendum uppruna.

Fyrri fréttir mbl.is:

Getur markað börnin varanlega

Skortur hjá börnum eykst á Íslandi

Börn leigjenda standa verr

Úr skýrslu UNICEF á Íslandi
Úr skýrslu UNICEF á Íslandi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert