Garðabær 56% dýrari en Skagafjörður

Garðabær er með mun hærri verðskrá heldur en Skagafjörður, Reykjanesbær …
Garðabær er með mun hærri verðskrá heldur en Skagafjörður, Reykjanesbær og Reykjavík

Þegar skoðaður er samanlagður kostnaður fyrir skóladagvistun með hressingu og hádegismat, er Sveitarfélagið Skagafjörður með lægsta verðið fyrir þessa þjónustu á 22.953 kr./mán. en hæsta verðið er hjá Garðabæ 35.745 kr./mán. en það er 12.792 kr. verðmunur á mánuði eða 56%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ.

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði breytingar á gjaldskrám fyrir skóladagvistun ásamt hressingu og hádegismat, fyrir yngstu nemendur grunnskólanna, hjá 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins. Þriggja tíma dagleg vistun eftir skóla ásamt síðdegishressingu og hádegismat í 21 dag er dýrust á 35.745 kr. hjá Garðabæ og ódýrust á 22.953 kr. hjá Sveitarfélaginu Skagafirði.

Ekki er tekið tillit til seðilgjalda eða annarra innheimtugjalda, sem leggjast ofan á gjöldin sem innheimt eru jafnvel í tvennu lagi. Einnig er oft í boði ávaxtastund og mjólkuráskrift á skólatíma sem er heldur ekki tekin með í samanburðinum. 

Hvað kostar hádegismaturinn?

Þrettán sveitarfélög af þeim fimmtán sem skoðuð voru hafa hækkað gjaldskrána fyrir hádegismat milli ára. Tekið er mið af mánaðaráskrift í samanburðinum. Mesta hækkunin er 9% hjá Garðabæ og Sveitarfélaginu Skagafirði. Gjaldið hækkar úr 428 kr. í 465 kr. hjá Garðabæ og úr 359 kr. í 391 kr. hjá Sveitarfélaginu Skagafirði.

Hækkunin er 7% hjá Ísafjarðabæ og 6% hjá Vestmannaeyjum og Fljótdalshéraði en um 2-5% hjá hinum. Hjá Hafnarfjarðarkaupstað og Reykjanesbæ er engin hækkun á milli ára. Mjög misjafnt er hvað foreldrar þurfa að greiða fyrir hádegismatinn, en munurinn er allt að 43% á milli sveitarfélaganna.

Dýrasta gjaldið er hjá Ísafjarðarbæ en þar kostar máltíðin 480 kr. en ódýrasta gjaldið er 335 kr. hjá Akraneskaupstað sem er 145 kr. verðmunur.

Mosfellsbær og Hafnarfjörður hækka mest

Tólf sveitarfélög af þeim fimmtán sem eru til skoðunar hafa hækkað hjá sér gjaldskrána fyrir skóladagvistun með hressingu á milli ára. Ódýrasta er mánaðargjaldið á 14.165 kr. Dýrast er gjaldið 25.980 kr. hjá Garðabæ. Verðmunurinn eru 11.815 kr. eða 83%. Mesta hækkun á gjaldskránni er 5% hjá Mosfellsbæ og Hafnarfjarðarkaupstað, úr 18.900 kr. í 19.845 kr. hjá Mosfellsbæ og úr 16.545 kr. í 17.311 kr. hjá Hafnarfjarðarkaupstað. Hin sveitarfélögin hafa hækkað gjaldskránna um 1-4% nema sveitarfélögin Reykjanesbær, Fljótdalshérað og Vestmannaeyjar sem eru með sömu gjaldskrá og í fyrra.

Þegar skoðaður er samanlagður kostnaður fyrir skóladagvistun með hressingu og hádegismat, er Sveitarfélagið Skagafjörður með lægsta verðið fyrir þessa þjónustu á 22.953 kr./mán. en hæsta verðið er hjá Garðabæ 35.745 kr./mán. en það er 12.792 kr. verðmunur á mánuði eða 56%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert