Getur markað börnin varanlega

Skólabörn að leik myndin er úr safni
Skólabörn að leik myndin er úr safni mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Efnislegur skortur barna getur haft varanleg og óafturkræf áhrif á þau og samfélagið ætti að berjast gegn honum með öllum tiltækum ráðum. Þetta kom fram í máli Bergsteins Jónssonar, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, sem kynnti nýja skýrslu í dag sem sýnir að hlutfall íslenskra barna sem býr við skort hefur tvöfaldast.

Niðurstöður skýrslunnar, sem ber titilinn „Börn á Íslandi sem líða efnislegan skort“ benda til þess að 9,1% íslenskra barna á aldrinum 1-15 ára hafi búið við skort árið 2014 og 2,4% búi við verulegan efnislegan skort. Þar kemur einnig fram á börn fólks með litla atvinnuþátttöku, litla menntun og lágar tekjur séu líklegri til að líða skort en önnur.

Bergsteinn sagði ennfremur að það gæti verið mun alvarlegra mál að barn einangrist félagslega en ef það gerðist á fullorðinsárum. Í pallborðsumræðum um skýrsluna tók Ingibjörg Broddadóttir, sérfræðingur á skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu, undir orð Bergsteins um möguleg varanleg áhrif skorts á börn. Þó að fullorðið fólk geti staðið af sér mörg mögur ár þá séu börnin berskjölduð. Skorturinn í æsku geti markað þau varanlega.

Anni Guðný Haugen, lektor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, var á sama máli og benti á að fátækt væri einn stærsti áhættuþáttur þess að börn lentu á jaðri samfélagsins. Einn sá hópur sem stæði hve verst væri fólk með litla menntun. Sagðist Anni spyrja sig ef börn þeirra dyttu sjálf snemma út úr skóla og kæmust ekki áfram í lífinu, hvað yrði þá um þeirra börn.

Fylgist með þróuninni með reglulegum könnunum

Þátttakendur í umræðunum voru á einu máli um mikilvægi þess að gera reglulegar kannanir á efnislegum skorti barna, helst árlegar, en aðeins eru til gögn fyrir tvö ár, 2009 og 2014. Bergsteinn sagði að þetta væri ekki síst mikilvægt til þess að fylgjast með þróuninni og sjá hvernig tilteknum hópum reiði af í framhaldinu.

Þá taldi hann nauðsynlegt að ráðast í greiningu á því hvers vegna börnum sumra hópa fólks væri hættara við skorti en öðrum til þess að stjórnvöld og aðrir geti skipulagt aðgerðir sínar í samræmi við það.

Anni vakti einnig athygli á því að skortur barna væri mismunandi eftir aldri. Það gæti verið verðmætt að gera ítarlegri rannsóknir til þess að leiða þann mun í ljós. Hún benti einnig á að efnislegur skortur segði ekki allt um stöðu barna, ekki um ást eða aðstæður sem þau búi við. Þannig gefi það augaleið að barn sem býr við þröngan kost en við góðar heimilisaðstæður líði allt öðru vísi en barni sem býr í sambærilegu húsnæði þar sem neysla er á heimilinu.

Fátækir foreldrar fá lítinn stuðning

Athygli vakt í könnuninni að börn sem eru einu börn pars virtust standa verr en börn einstæðra foreldra. Bergsteinn vildi ekki útiloka að skýringin væri einhvers konar skekkja í könnuninni. Ingibjörg vakti hins vegar athygli á að pör með lágar tekjur sem á eitt barn standi höllum fæti. Ríkið komi mjög lítið til móts við þau borið saman við einstæða foreldra. Staða þeirra á húsnæðismarkaði væri einnig afar slæm.

Könnunin leiddi meðal annars í ljós að búsetuform foreldra hefur mikil áhrif á það hvort að börn líða skort. Börn leigjenda voru þannig mun líklegri til að búa við skort en börn foreldra í eigin húsnæði.

Fyrri frétt mbl.is: Skortur hjá börnum eykst á Íslandi

Úr skýrslu UNICEF á Íslandi
Þátttakendur í pallborðsumræðum UNICEF sögðu að það gæti verið hættulegra …
Þátttakendur í pallborðsumræðum UNICEF sögðu að það gæti verið hættulegra að börn einangrist félagslega en ef það gerist á fullorðinsárum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert