Vill ekki setja frekar reglur um húðflúrun

16 húðflúrstofur eru með starfsleyfi hér á landi.
16 húðflúrstofur eru með starfsleyfi hér á landi. mbl.is/Ernir

16 húðflúrstofur eru með starfsleyfi hér á landi. Tilvik í heilbrigðiskerfinu sem rekja má til húðflúrunar eru ekki skráð sérstaklega nema ef tilfelli myndi falla undir skilgreiningu tilkynningarskylds ástands, samkvæmt reglugerð nr. 221/2012, um skýrslugerð vegna sóttvarna.  Ráðherra hefur ekki í hyggju að leggja til að starfsheiti húðflúrara verði löggilt.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, þingkonu Framsóknarflokksins.

Í svarinu segir einnig að í gildi séu samræmd starfsleyfisskilyrði fyrir líkamsgötun, þar með talin húðflúr. Í starfsleyfi húðflúrstofa er kveðið á um að starfsleyfishafi þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði sem taka á hollustuháttum í starfseminni. Í skilyrðunum er m.a. að finna ákvæði er varðar húsnæði og búnað, hreinlæti, sóttvarnir, upplýsingar til við­skipta­vina og forráðamanna, samþykki við­skipta­vina og um­hverfismál.

Vildi Jóhanna María einnig vita hvort ráðherra ætlaði að beita sér fyrir setningu reglna um starfsemi húðflúrstofa.

„Að mati ráðherra eru reglur á sviði hollustuhátta varðandi starfsemi húðflúrstofa nægjanlegar hvað varðar hollustuvernd og virkt eftirlit heilbrigðisnefnda. Mikilvægt er þó að vinna betur að fræðslu um þessi mál og styrkja samvinnu milli þeirra aðila sem koma að starfsemi húðflúrstofa.

Um­hverfisstofnun hefur áhuga á að halda fræðsludag fyrir aðila með starfsleyfi til að framkvæma húðflúrun, varanlega förðun með húðflúrun og ísetningu eyrnalokka og álíka skarts og þá sem hafa hug á að hefja slíka starfsemi, farið hafa fram viðræður milli Um­hverfisstofnunar, embættis landslæknis og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga í kjölfar tillögu frá embætti landlæknis um þetta,“ segir í svari ráðherra.  

Embætti landlæknis hefur einnig staðið fyrir fræðslu til einstakra aðila um smithættu sem getur stafað af húðflúri, líkamsgötun og skyldri starfsemi og þær aðferðir sem skal beita við að hreinsa, sótthreinsa og dauðhreinsa áhöld og búnað. Veitt er fræðsla um nauðsynlegar sóttvarnir við húðgötun og húðflúr og farið yfir opinberar reglur og starfsleyfisskilyrði í þessum efnum.

Fræðslan tekur um einn klukkutíma og er hún veitt án endurgjalds. Þeir sem fá þessa fræðslu undirrita í lok hennar yfirlýsingu þar sem þeir skuldbinda sig til að fara í einu og öllu eftir reglum og leiðbeiningum heilbrigðisnefndar á viðkomandi starfssvæði og landlæknisembættis um húðflúr, húðgötun og skylda starfsemi. Þeir sem sótt hafa þessa fræðslu eru einkum húðflúrarar og gatarar en einnig snyrtifræðingar og nálarstungumeðferðaraðilar. Fjöldi einstaklinga sem hafa fengið þessa fræðslu eru um 120 síðastliðin 15 ár.

Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði um húðflúr.
Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði um húðflúr.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert