Kostar ríkið að minnsta kosti 1,2 milljarða

Ólafur Þ Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Þ Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Ríkið mun þurfa að greiða að minnsta kosti 1,2 milljarða þegar upp verður staðið og það er varfærið mat. Þetta segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Í dag féll dómur í Hæstarétti þar sem svokallað útboðsgjald var dæmt ólöglegt og þarf ríkið í framhaldinu að greiða þremur fyrirtækjum rúmlega 500 milljónir.

Fyrirtækin sem um ræðir eru Hagar, Innnes og Sælkeradreifing, en þau höfðuðu öll mál á hendur ríkinu vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum og tollkvóta og gjaldtöku vegna hans.

Samið um tollfrjálsan innflutning en létu borga fyrir tollkvóta

Íslenska ríkið hafði skuldbundið sig með samningum við Evrópusambandið og Alþjóðaviðskiptastofnunina til að vera með ákveðið magn af ýmsum landbúnaðarafurðum tollfrjálsar eða á lágum tollum. Á það meðal annars við um svínakjöt, kjúkling og osta. Löggjafinn hér á landi ákvað aftur á móti að hægt væri að fara nokkrar leiðir við úthlutun á þessu magni og gat ráðherra ákveðið hvaða leið væri valin.

Frétt mbl.is: Ríkið endurgreiði hálfan milljarð

Ein leiðin felur í sér að tekið er gjald fyrir tollkvótann, en þá er magnið boðið upp og hæstbjóðandi fær úthlutað tollkvótanum. Eitt árið var það meðal annars þannig að um 200 tonn af kjúklingi sem áttu að vera tollfrjáls enduðu með að bera 48% toll.

„Tjónið er gríðarlegt“

Páll Rúnar M. Kristjánsson, Hæstaréttarlögmaður, sótti málið fyrir hönd félaganna þriggja. Segir hann að niðurstaða dómsins muni hafa áhrif á innflutningsaðila og mögulega einhverja veitingastaði. „Það er ljóst að það er búið að taka þessi gjöld í 20 ár,“ segir hann, en bætir við að mest af því sé þó fyrnt. „Tjónið er gríðarlegt,“ segir hann, „ekki bara fyrir innflytjendur, heldur markaðinn í heild, milliliði, heildsala og neytendur.“

Páll Rúnar M. Kristjánsson var lögmaður fyrirtækjanna.
Páll Rúnar M. Kristjánsson var lögmaður fyrirtækjanna. Ljósmynd/Málflutningsstofa Reykjavíkur

Segir hann að í kjölfar dómsins verði löggjafinn að bregðast við og koma upp sómasamlegu kerfi. Þannig skipti mestu máli að engar takmarkanir séu á magninu sem flutt er inn.

Páll segir að niðurstaða dómsins hafi verið sú að ríkið megi ekki taka skatt samkvæmt valkvæðri gjaldtökuheimild. Það þýðir á mannamáli að ráðherra hefur ekki ákvörðunarvald hvort skattur sé innheimtur eða ekki eins og í þessu tilviki.

200-300 milljónir á ári undanfarin ár

Ólafur segir upphæðirnar vera gríðarlegar sem um ræði. Undanfarin ár hafi útboðsgjaldið verið á bilinu 200-300 milljónir, en í ár stefni í að það verði 330 milljónir. Fyrirtækin þrjú sem eru á bak við málssóknina eru ekki þau einu sem hafa keypt tollkvótana, heldur hafa fleiri innflutningsaðilar, veitingastaðir og íslensku afurðastöðvarnar tekið þátt í útboðunum og fengið úthlutað. Segir Ólafur að félög eins og Mjólkursamsalan muni t.d. örugglega fá „slatta í kassann“ vegna talsverðs innflutnings á ostum undanfarin ár.

Tímabilið sem fyrirtækin þrjú kröfðust endurgreiðslu vegna er fjögur ár, eða frá 2009 til 2013. Hlutur þeirra er því nokkuð stór í heildarnýtingu innflutningskvótanna.

Þrátt fyrir samninga við Evrópusambandið um tollfrelsi á ákveðnu magni …
Þrátt fyrir samninga við Evrópusambandið um tollfrelsi á ákveðnu magni á kjúklingi hafa innflytjendur endað með að borga háar upphæðir í kvótagjald fyrir tollinn. mbl.is/Árni Sæberg

Lágmark 1,2 milljarðar

Til viðbótar við þessi fjögur ár sem kæran náði til hafa þau undanfarin þrjú ár einnig greitt fyrir kvóta. Það má því gera ráð fyrir því að upphæðin muni aukast talsvert hjá þeim, auk þess sem aðrir innflytjendur hafa stóran hluta í innflutningi á þessum landbúnaðarafurðum undanfarin ár. Eins og fyrr segir telur Ólafur að heildarupphæðin sem ríkið gæti þurft að greiða öllum kvótakaupendum síðustu ára numið 1,2 milljörðum og líklega talsvert hærri upphæð.

Hvaða áhrif mun þetta hafa á vöruverð?

Innflytjendurnir vöruðu við því þegar þeir settu kæruna fram að þetta aukna gjald myndi fara út í vöruverð og þannig að lokum leggjast á vöruverð til neytenda. Aðspurður hvort þessi endurgreiðsla núna þýði ekki að fyrirtækin geti lækka álögur sínar talsvert, allavega í tiltekinn tíma, segir Ólafur að hvert og eitt fyrirtæki þurfi að svara fyrir það. Segir hann að þessi innspýting muni klárlega hjálpa afkomu þeirra, en á móti komi að hækkanir séu framundan, m.a. vegna launahækkana og gæti því þessi sigur fyrir dómstólum orðið til að minnka þá verðhækkun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert