Næst oftast flogið til Kaupmannahafnar

Frá Kastrupflugvelli.
Frá Kastrupflugvelli. AFP

Í fyrra nýttu rúmlega 337 þúsund farþegar sér áætlunarflug Icelandair til Danmerkur. Daglega fara þotur félagsins tvær til fimm ferðir til Kaupmannahafnar. Farþegum síðasta árs fjölgaði um 33 þúsund eða um 11% frá árinu á undan samkvæmt tölum frá Kaupmannahafnarflugvelli.

Icelandair var fjórtánda umsvifamesta flugfélagið í þessari stærstu flughöfn Norðurlanda árið 2015. Þetta kemur fram á vef Túrista.

WOW Air fækkaði ferðum en Icelandair bætti við

Í heildina fóru 437.507 farþegar milli Kaupmannahafnar og Keflavíkurflugvallar á síðasta ári og fjölgaði þeim um sex af hundraði samkvæmt upplýsingum Túrista frá Kaupmannahafnarflugvelli. Danska höfuðborgin er sá erlendi áfangastaður sem næst oftast er flogið til frá Íslandi en auk Icelandair býður WOW air upp á áætlunarferðir þangað.

Forsvarsmenn danska flugvallarins gefa hins vegar aðeins upp farþegafjölda 20 umsvifamestu flugfélaganna þar á bæ og WOW er ekki eitt af þeim. En miðað við farþegafjöldann á flugleiðinni í fyrra og hittifyrra þá má álykta að farþegum í Kaupmannahafnarflugi WOW fækkað úr 108 þúsund niður í 100 þúsund á síðasta ári því íslensku félögin tvö eru ein um þessa flugleið.

Hlutdeild Icelandair í Kaupmannahafnarfluginu hefur þar af leiðandi farið upp í 77 prósent í fyrra sem er meira vægi en árin á undan eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan.

Samkvæmt talningum Túrista þá fækkaði WOW Air ferðum sínum til Kastrup lítillega á síðasta ári á meðan Icelandair bætti ögn við. Í heildina voru ferðir Icelandair til Kaupmannahafnar nærri þrisvar sinnum fleiri en ferðir WOW air í fyrra og sá munur endurspeglast í farþegafjölda félaganna á þessari flugleið.

Þess má geta að fyrsta heila árið í rekstri Iceland Express náði félagið 40 til 45 prósent hlutdeild í Kaupmannahafnarfluginu samkvæmt skýrslu Samkeppniseftirlitsins sem kom út 2013. 

Gjörbreytt hlutdeild eftir ár

Í lok mars næstkomandi hefur SAS, stærsta flugfélag Norðurlanda, áætlunarflug hingað frá Kaupmannahöfn og mun fljúga leiðina daglega allt árið um kring. SAS bauð síðast upp á beint flug á þessari leið fyrir um tveimur áratugum síðan en með endurkomu félagsins eykst samkeppni í flugi milli Íslands og Danmerkur verulega.

Það er því ljóst að hlutdeild Icelandair og WOW air í Kaupmannahafnarfluginu verður gjörbreytt þegar árið 2016 verður gert upp. 
Hafa ber í huga að hluti farþega íslensku flugfélaganna, á leið til og frá Kaupmannahöfn, millilendir aðeins hér á landi á leið yfir hafið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert