Hönnun verði endurskoðuð

Nýtt stjórnarráð? Hönnun húsanna á reitnum austan við Tollhúsið og …
Nýtt stjórnarráð? Hönnun húsanna á reitnum austan við Tollhúsið og að Lækjargötu mun breytast ef samkomulag næst um leigu stjórnarráðsins á skrifstofuhúsnæði á reit 2 að Austurbakka 2. Það blasir við úr Stjórnarráðshúsinu. Teikning/PK arkitektar

„Ég fagna því sem ég lít á sem mjög lausnamiðaða nálgun þessa fyrirtækis. Við í ráðuneytinu munum einhenda okkur í það að skoða þetta með þeim. Ég sé ekki ástæðu til annars en að hægt verði að finna þarna lausn sem hentar öllum, komi sér vel fyrir stjórnarráðið, fyrirtækið og ekki síst borgarbúa og borgina alla,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

Kynnt voru í gær áform Landstólpa þróunarfélags ehf. og forsætisráðuneytisins um að vinna saman að endurskoðun á hönnun húsa sem fyrirtækið hyggst byggja á Hörpureitnum, austan við Tollhúsið, og gera drög að samningi um leigu stjórnarráðsins á öllu skrifstofuhúsnæði á reit 2 á lóðinni Austurbakka 2. Byggingaráform þessi hafa valdið deilum, fyrst vegna ágreinings um varðveislu gamla hafnargarðsins sem lá á byggingarreitnum og síðan um skipulagið. Sigmundur Davíð var meðal þeirra sem gagnrýndu hönnun og skipulag.

„Þegar menn nálgast skipulagsmál með þessum hætti er yfirleitt hægt að finna niðurstöðu sem er sú besta fyrir alla. Til þess er skipulagsvinna. Ég fagna þessu mjög og lít á hana sem nálgun til fyrirmyndar,“ segir forsætisráðherra um samkomulagið.

Ráðuneytið þarf húspláss

Sigmundur segir að gera megi ráð fyrir að hönnunin taki einhverjum breytingum en aldrei að vita nema sú vinna sem lagt hafi verið í gæti nýst annars staðar. Í staðinn komi hönnun sem betur sé til þess fallin að styrkja sérkenni og heildarmynd Kvosarinnar.

Gert er ráð fyrir miklu byggingamagni á þessari lóð. Sigmundur segir að til greina komi að hafa makaskipti á eignum og færa með því eitthvað af fyrirhuguðu byggingamagni á lóð sem stjórnarráðið hefur til umráða annars staðar. Það muni ráðuneytið skoða.

Áætluð stærð skrifstofurýmisins, miðað við núverandi hönnunarforsendur, er 6.400 fermetrar. „Stjórnarráðið hefur þörf fyrir töluvert rými,“ segir forsætisráðherra spurður að því hvort það hafi þörf fyrir allt þetta húspláss. Meginhluti starfsmanna forsætisráðuneytisins hefur starfsaðstöðu í leiguhúsnæði við Hverfisgötu. Sigmundur segir að útlit sé fyrir að ráðuneytið missi hluta þess. Því þurfi ráðuneytið að huga að húsnæðismálum sínum. Þá hafi lengi staðið til að önnur ráðuneyti gerðu það einnig. „Framkvæmdum við nýjar stjórnarráðsbyggingar var frestað á árinu 2006. Fyrir vikið hefur ekki verið leyst úr húsnæðismálum stjórnarráðsins til lengri tíma,“ segir ráðherra.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert