Koma vonandi eftir 5-6 vikur

35 sýrlenskir flóttamenn komu hingað til lands á þriðjudaginn.
35 sýrlenskir flóttamenn komu hingað til lands á þriðjudaginn. AFP

Vonast er til þess að næsti hópur sýrlenskra flóttamanna komi til Íslands eftir fimm til sex vikur. Að sögn Lindu Rósar Alfreðsdóttur, sérfræðings hjá velferðarráðuneytinu, er um að ræða tuttugu einstaklinga og munu þeir búa í Hafnarfirði og Kópavogi.

35 sýrlenskir flóttamenn komu hingað til lands á þriðjudaginn frá Líbanon þar sem þeir höfðu búið í flóttamannabúðum. Tvær fjölskyldur fóru til Kópavogs þar sem þeim var boðin búseta en fjórar til Akureyrar. Hópurinn sem kom á þriðjudaginn átti að vera stærri en eins og sagt var frá á mánudaginn hættu þrjár fjölskyldur við að koma eftir að þeim var boðin hér búseta. Þá þurfti ein fjölskylda að fresta komu sinni en í þeirri fjölskyldu er barnshafandi kona sem er komin of langt á leið til þess að mega fljúga. Að sögn Lindu mun konan fæða barnið úti í Líbanon.

Það er þá sú fjölskylda og þrjár eða fjórar til viðbótar sem koma hingað til lands eftir nokkrar vikur. Að sögn Lindu stendur nú yfir það ferli að bjóða fólki að koma. „En við erum alltaf að ræða um einstaklinga og ýmislegt getur komið upp á eins og við vitum,“ segir Linda.

Að sögn Lindu stendur einnig til að taka á móti þriðja hópnum og mun það, eins og áður, fara í gegnum Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Að sögn Lindu er ekki búið að segja til um hversu margir flóttamenn verði í þriðja hópnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert