„Markmið okkar að allir fái meðferð“

Heilbrigðisráðherra staðfesti í dag tímamótasamning milli Landspítala og lyfjafyrirtækisins Gilead.

Gilead er framleiðandi lyfsins Harvoni sem notað er við lifrarbólgu C og munu allir sjúklingar sem þjást af sjúkdómnum geta fengið lyfið, sér að endurgjaldslausu. Hátt í 1.000 manns eru smitaðir af sjúkdómnum í dag. Fyrstu sjúklingarnir fá lyfið í næstu viku miða áætlanir að því að 200 sjúklingar fái lyfið á fjögurra mánaða fresti. Þannig eigi meðferð allra þeirra sem smitaðir eru að vera lokið innan tveggja ára og standa vonir til að útrýma megi sjúkdómnum hér á landi.

Meirihluti smita verður við notkun sýktra sprautunála í tengslum við fíkniefnanotkun. Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi segir sjúklinga finna fyrir fordómum vegna þessa þrátt fyrir að margir hafi smitast eftir aðeins eitt eða tvö skipti en síðan snúið lífi sínu til betri vegar og sé afar venjulegt fólk í dag.

Það eru þó ekki bara sjúklingar á beinu brautinni sem munu fá lyfið því þeir sem enn eru í virkri fíkniefnaneyslu munu einnig eiga kost á meðferðinni. Sigurður Ólafsson, umsjónarlæknir lifrarlækninga á Landspítala segir lyfið ekki gera fólk ónæmt fyrir veirunni og því geti sjúklingar smitast á nýjan leik eftir að meðferð sé lokið. Því sé forvarnarstarf nauðsynlegur hluti af verkefninu, rétt eins og lyfin sjálf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert