Runólfur tekur við af Aldísi

Runólfur Þórhallsson, aðalvarðstjóri í sérsveit ríkislögreglustjóra, tekur við sem yfirmaður …
Runólfur Þórhallsson, aðalvarðstjóri í sérsveit ríkislögreglustjóra, tekur við sem yfirmaður fíkniefnadeildar.

Runólfur Þórhallsson, aðalvarðstjóri í sérsveit ríkislögreglustjóra, mun taka við embætti yfirmanns fíkniefnadeildar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu af Aldísi Hilmarsdóttur. 

Þetta staðfestir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri, í samtali við mbl.is. Áður hafði verið greint frá því að yrði færð í annað starf innan lögreglunnar.

Frétt mbl.is: Sigríður færir Aldísi til í starfi

Sigríður vísar í 19. grein laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins aðspurð um ástæður flutningsins. Þar kemur fram að starfsmanni sé skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi, en að hann skuli halda óbreyttum launakjörum og réttindum út skipunartímann.

19. gr.Skylt er starfsmanni að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi. Starfsmaður getur kosið að segja upp starfi sínu vegna slíkra breytinga, enda skýri hann ráðherra eða forstöðumanni frá því innan eins mánaðar frá því að breytingarnar voru tilkynntar honum.

Ef breytingarnar hafa í för með sér skert launakjör starfsmanns eða réttindi skal hann halda óbreyttum launakjörum og réttindum þann tíma sem eftir er af skipunartíma hans í embætti eða jafnlangan tíma og réttur hans til uppsagnarfrests er samkvæmt ráðningarsamningi, sbr. 46. gr.

Aldís Hilmarsdóttir mun sjá um heildarendurskoðun á verkefnum lögreglunnar.
Aldís Hilmarsdóttir mun sjá um heildarendurskoðun á verkefnum lögreglunnar. mbl.is/Árni Sæberg

 

Mun sjá um heildarendurskipulag 

Sigríður segir að Aldís hafi átt sæti í innleiðingarhópi hjá embættinu og nú fari hún í þau verkefni að auknum krafti næstu sex mánuðina. Mun hún þar vinna að heildarendurskipulagi á þeim verkefnum sem verið er að þróa innan lögreglunnar varðandi rannsóknir. Mun Aldís með þessu koma inn á skrifstofu lögreglustjóra.

Runólfur, sem tekur við stöðu Aldísar, hefur að sögn Sigríðar reynslu frá embætti sérstaks saksóknara og fíkniefnadeildinni og þá hefur hann lagt stund á laganám. „Þetta er maður með reynslu,“ segir Sigríður.

Bætir hún við að talið hafi verið nauðsynlegt að fá utanaðkomandi mann þar sem það hafi verið „mikil óeining í nokkurn tíma“ innan deildarinnar. Segir hún þetta nauðsynlega ráðstöfun meðan verið sé að byggja upp deildina að nýju og meðan rannsókn stendur yfir tveimur starfsmönnum deildarinnar fyrir óeðlileg samskipti við brotamenn.

Sigríður segir aðspurð að ákvörðunin um færslu Aldísar hafi alfarið verið tekin innan embættisins en ekki af innanríkisráðuneytinu. Aldís hafði í vikunni farið á fund innanríkisráðherra.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. Mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki gott ástand á deildinni

„Við erum að svara, erum að byggja upp deildina. Við teljum best að það sé gert með þessum hætti,“ segir Sigríður. „Það hefur ekki verið gott ástand á deildinni í nokkurn tíma, frá síðasta vori,“ bætir hún við.

Hópur lögreglumanna kvartaði nýlega undan störfum Sigríðar við Landssamband lögreglumanna.

Segir Sigríður að hún hafi átt fund með landssambandinu og yfirstjórn lögreglunnar í dag og það hafi verið hreinskiptur fundur. Segir hún að hópurinn muni hittast fljótlega aftur og farið verði nánar yfir þessar kvartanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert