Skera upp herör gegn lifrarbólgu

Kristján Þór staðfestir samninginn með undirskrift sinni.
Kristján Þór staðfestir samninginn með undirskrift sinni. Ljósmynd/Landspítali

Í dag hófst meðferðarátak sem miðar að því að útrýma lifrarbólgu C hér á landi. Átakið felst í því að nú býðst öllum þeim sem njóta sjúkratrygginga hér á landi og smitaðir eru af sjúkdómnum meðferð með lyfinu Harvoni sér að kostnaðarlausu.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, staðfesti við hátíðlega athöfn samstarfssamning Landspítalans og Gilead, fyrirtækisins sem framleiðir Harvoni. Í honum felst að Gilead leggur íslenska ríkinu til lyf fyrir 1.200 manns og í staðinn munu íslenskir heilbrigðisstarfsmenn gefa lyfið og rannsaka virkni þess.

Sagði ráðherra það afar ánægjulegt að staðfesta verkefnið sem starfsfólk íslenskrar heilbrigðisþjónustu hefur unnið að í all langan tíma.

„Það er ætlast til að maður gangi með hausinn í poka þegar maður bregður sér út í bert loft, en það er engin ástæða til þess,“ sagði ráðherrann sem sagði ýmsa stóra áfanga í viðreisn heilbrigðiskerfisins vera að nást. Harvoni-verkefnið væri einn þeirra.

Sagði hann Íslendinga nú vera í forystu þjóða þegar kemur að baráttu gegn lifrarbólgu C og að það sannfærði hann enn og aftur um að þó svo að þjóðin væri lítil stæði fátt í vegi fyrir henni. 

Sigurður Ólafsson, umsjónarlæknir lifrarlækninga.
Sigurður Ólafsson, umsjónarlæknir lifrarlækninga. Ljósmynd/ Landspítali

200 sjúklingar á fjögurra mánaða fresti

Talið er að milli 800 og 1.000 manns hér á landi séu smitaðir af lifrarbólgu C. Fyrstu sjúklingarnir verða kallaðir inn til meðferðar í næstu viku og er ætlunin að taka 200 sjúklinga til meðferðar á um fjögurra mánaða fresti. Stefnt er að því að bjóða öllum sem greindir eru með smit meðferð innan tveggja ára. Lyfin eru gefin í töfluformi daglega meðan á meðferð stendur, að jafnaði í átta til tólf vikur.

 Í ræðu sinni sagði Sigurður Ólafsson, umsjónarlæknir lifrarlækninga á Landspítala, engan einstakling með lifrarbólgu C þurfa að hafa áhyggjur af því að missa af meðferðinni. Tók hann fram að þó svo að lyfin og lyfjameðferðin væru hornsteinn verkefnisins þyrfti meira til að gera út af við sjúkdóminn og þar væri forvarnarstarf nauðsynlegt.

„Það er alveg ljóst að hér er um einstakt verkefni að ræða og kannski sérstakara verkefni en margir gera sér grein fyrir,“ sagði Sigurður.

Sagði hann að ef litið væri til annarra í landa í heiminum stæði Harvoni aðeins þeim sjúklingum til boða sem eru hvað lengst leiddir. Niðurstöður verkefnisins gætu því skipt sköpum á heimsvísu og orðið öðrum þjóðum fyrirmynd.

„Það er klárt að það verður litið til okkar, athyglin er þegar farin að beinast að okkur í hópi lifrarlækninga," sagði Sigurður.

Þórarinn Tyrfingsson sagði breytingarnar með verkefninu þær stærstu sem hann …
Þórarinn Tyrfingsson sagði breytingarnar með verkefninu þær stærstu sem hann hefði upplifað í sínu fagi. Ljósmynd/ Landsspítali

Ekki lengur tímasprengjur

Flestir þeirra sem greinast með lifrarbólgu c hér á landi smitast við fíkniefnanotkun með sprautum og fær stór hluti sjúklinga greiningu sína á sjúkrahúsinu Vogi. Verkefnið er því unnið í samstarfi við SÁÁ og er ætlunin að bjóða öllum smituðum meðferðina, óháð því hvort þeir séu enn virkir fíkniefnaneytendur eða ekki.

„Þetta er löng leið sem við höfum farið," sagði Þórarinn Tyrfingsson, forstjóri Vogs í ræðu sinni við athöfnina. „Við höfum þurft að tilkynna ungum einstaklingum sem eru með þennan sjúkdóm að þeir séu nánast eins og tímasprengja.“

Sagði hann 882 einstaklinga smitaða af veirunni samkvæmt bókhaldi Vogs, þar af hefðu 88 verið innan við tvítugt þegar smit átti sér stað og helmingurinn yngri en 29 ára. Sagði hann þá mynd sem samfélagið hefði af sjúklingum oft skekkta og einkennast af fordómum.

„Í dag erum við svo heppin að við erum búin að útrýma sjúkdómnum úr blóðbönkunum og ýmsum aðgerðum en eftir situr þessi smitleið.“ 

Sagði hann flesta sem veikjast dveljast stutt í neyslu, vera komið aftur út í þjóðfélagið og vera ekki þeir sjúklingar sem margir halda að þeir séu, heldur venjulegt fólk. 

„Margir sprautuðu sig ekki nema einu sinni, fólk áttar sig ekki á því hvað heimurinn hefur breyst.“

Þrátt fyrir ánægjuna sem því fylgir að hrinda átakinu af stað viðurkenndi Þórarinn að í honum væri „glímuskjálfti“.

„Við ætlum að láta þetta takast en það er glímuskjálfti í okkur af því að þetta er svo ótrúlegt tækifæri. Ég hef ekki á mínum starfsferli upplifað breytingar í mínu fagi sem hafa haft jafn mikil áhrif á mína sjúklinga."

Stofnuð hefur verið upplýsingasíða um meðferðarátakið á vef Landspítala, auk þess sem upplýsingar eru veittar í gjaldfrjálsu símanúmeri:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert