Skemmtilegasta hlaup ferilsins

Elísabet, Börkur og Sigurður.
Elísabet, Börkur og Sigurður. Mynd/Hulda Garðarsdóttir

„Þetta er skemmtilegasta hlaup sem ég hef tekið þátt í,“ segir Sigurður Hrafn Kiernan í samtali við mbl.is mínútum eftir að hann kom í mark í Vibram 100 km hlaupinu sem fer fram í Hong Kong. Sigurður talar þar af reynslu en hann hefur tekið þátt í á þriðja tug ofurmaraþona. 

„Það er gaman að hlaupa þegar ekkert amar að Þá nýtur maður sín í botn allan tímann. Þetta er gríðarlega falleg leið og fallegt hlaup. Maður upplifir ótrúlegt útsýni yfir Hong Kong og meginlandið. Og svo er frábært að fá að klifra hæsta tind Hong Kong og einhverja minni tinda líka. Þetta er súper hlaup. Ég mæli með þessu,“ segir Sigurður. 

Fjórir Íslendingar tóku þátt í hlaupinu, þau Sigurður, Elísabet Margeirsdóttir, Börkur Árnason og Birkir Kristinsson.

Sigurður upplifði að eigin sögn enga sérstaka erfiðleika í hlaupinu sjálfu og þakkar hann skipuleggendum fyrir það.  „Það voru svo vel merktar hlaupaleiðir. Ég á það til að villast og geri það nú yfirleitt en þetta var svo ótrúlega vel merkt að það var ekki hægt að villast.“

„Svo var frábær þjónusta og drykkjarstöðvarnar voru með ótrúlega fjölbreyttan mat sem er mjög óvenjulegt í svona hlaupum og nóg af öllu.“

Þá var veðrið einnig hagstætt Íslendingunum. 

Hitastigið hérna var fullkomið fyrir íslending. 10 metrar á sekúndu, 5-10 stiga hiti og smá rigning. Maður fékk því góða kælingu. Ég er búinn að æfa í snjó í allan vetur og var því skíthræddur ef það væri hitabylgja hérna en svo var ekki. Þetta gat ekki verið betra

Aðspurður hvernig líðan hafi verið á síðustu metrunum segir Sigurður:

„Ég var farinn að telja niður kílómetrana í lokin þegar voru fimm kílómetrar eftir og á síðasta kílómetranum var ég farinn að telja metrana. Það var frábær tilfinning að komast í mark og hætta loksins að hlaupa eftir 15 klukkustunda hlaup.“

En hvernig datt Íslendingunum í hug að taka þátt í þessu hlaupi?

„Það er gríðarlega mikil hlaupamenning í Hong Kong. Ég hef hitt marga frá Hong Kong í öðrum hlaupum sem ég hef tekið þátt í og þeir hafa sagt mér frá þessu hlaupi. Svo eru Íslendingar búsettir hérna sem hafa minnst á þetta við mig. Það er alltaf gaman að fara á nýjar slóðir og sjá lönd með öðruvísi hætti.“

Sigurður Hrafn.
Sigurður Hrafn. Mynd/Hulda Garðarsdóttir
Elísabet Margeirsdóttir.
Elísabet Margeirsdóttir. Mynd/Hulda Garðarsdóttir
Sigurður og Börkur.
Sigurður og Börkur. Mynd/Hulda Garðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert